Innlent

Segir eftirliti með lögreglu stórlega ábótavant

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigurður vill að geta ríkissaksóknara til að hafa eftirlit með lögreglu verði efld.
Sigurður vill að geta ríkissaksóknara til að hafa eftirlit með lögreglu verði efld. Vísir/Vilhelm

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir eftirliti með þeim þvingunaraðgerðum sem lögrega hefur heimildir til að beita í dag stórlega ábótavant. Nefnir hann símhlustun sérstaklega í þessu sambandi.

Hann segir mikilvægt að efla eftirlit með lögreglu áður en lögregla fær frekari forvirkar rannsóknarheimildir.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu en frumvarp dómsmálaráðherra um forvirkar rannsóknarheimildir var til umræðu á málþingi Úlfljóts, tímarits laganema, í Lögbergi í gær.

„Hér þarf að fara gætilega. Við viljum ekki gefa afslátt af reglum um réttláta málsmeðferð og friðhelgi einkalífsins. Þá er einna mest hætta á því að menn misbeiti valdi sínu,“ sagði Sigurður í samtali við Morgunblaðið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nefnd um eftirlit með lögreglu verði falið eftirlit með aðgerðum á grundvelli laganna en ekki virðist fylgja að starf hennar verði eflt, að minnsta kosti er ekki gert ráð fyrir auknum fjármunum til nefndarinnar.

„Ég tel að það þurfi að efla eftirlit með störfum lögreglu. Það er mjög aðkallandi að mínu viti að ríkissaksóknara séu færðar fullnægjandi heimildir til þess að sinna því eftirliti sem hann gegnir nú gagnvart þvingandi aðgerðum, þar á meðal símhlustun. Honum er falið það eftirlit en virðist ekki geta sinnt því.“

Vandamálið liggi meðal annars í því að ríkissaksóknari virðist ekki hafa úrræði til að þvinga lögreglustjóra til að fara að fyrirmælum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×