Fótbolti

Tóku markstangirnar með sér út af vellinum eftir sigurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Tennessee fagna sigrinum með því að rífa niður markstangirnar.
Stuðningsmenn Tennessee fagna sigrinum með því að rífa niður markstangirnar. AP/Wade Payne

Stuðningsmenn Tennessee höfðu sérstaklega gaman af því að vinna stórskotalið Alabama í bandaríska háskólafótboltanum um helgina en það er óhætt að segja að fagnaðarlætin hafi verið ansi sérstök og dýr fyrir skólann.

Tennessee Volunteers vann þarna 52-49 sigur á erkifjendum sínum í Alabama Crimson Tide og hafa nú unnið alla sex leiki sína á tímabilinu. Þetta var jafnframt fyrsta tap Alabama á tímabilinu.

Úrslit leiksins vöktu mikla athygli í Bandaríkjunum en það var einnig fögnuður stuðningsmanna Tennessee háskólans sem rötuðu í fréttirnar. Í leikslok ruku stuðningsmenn Tennessee inn á völlinn til að fagna sigrinum en þau létu ekki þar við sitja.

Stuðningsmennirnir ákváðu nefnilega að rífa upp markstangirnar og taka þær með sér út af vellinum. Það mátti sjá einhvern standa á þeim þegar hópur fólks tók þær með sér.

Þetta voru sömu markstangir og sparkarinn Chase McGrath hafði nýtt sér þegar hann tryggt liðinu sigur með vallarmarki á lokasekúndum leiksins.

Sigurreifir stuðningsmenn fóru með markstangirnar út af vellinum og enduðu á því að henda þeim í Tennessee ánna sem er ekki langt frá Neyland leikvanginum í Knoxville.

Þetta verður skólanum dýrt spaug. SEC-deildin hefur þegar sektað skólann um hundrað þúsund dollara eða 14,5 milljónir. Þá þarf auðvitað að kaupa nýjar markstangir og setja þær aftur upp á vellinum.

Nú er hafin söfnun fyrir sektinni og nýjum markstöngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×