Innlent

13 milljarðar í annan áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Framkvæmdir við annan áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi hefjast vorið 2023 og munu taka 36 mánuði. Verðmiðinn á pakkanum er á milli 12 og 13 milljarðar króna.
Framkvæmdir við annan áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi hefjast vorið 2023 og munu taka 36 mánuði. Verðmiðinn á pakkanum er á milli 12 og 13 milljarðar króna. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Um fjörutíu ný hús verða byggð í öðrum áfanga nýja miðbæjarins á Selfossi, þar á meðal tvö hótel. Framkvæmdir hefjast næsta vor og munu taka 36 mánuði. Kostnaður við verkið er á milli 12 og 13 milljarðar króna.

Fjölmenni mætti á íbúafund í nýja miðbænum í gærkvöldi þar sem annar áfangi nýja miðbæjarins var kynntur í máli og myndum. Sem fyrr er það Sigtún þróunarfélag, sem stendur að uppbyggingu miðbæjarins. Ætlunin er að fara í íbúakosningu eða könnun um breytingu á deiliskipulag annars áfanga nýja miðbæjarins, sem verður glæsilegur í alla staði eins og fyrsti áfanginn er.

“Þar erum við að halda áfram að byggja upp sögufræg hús alls staðar af landinu. Við ætlum að byggja 40 hús í viðbót við þau 13, sem eru risin og stefnum á því að byrja á þessu verkefni næsta vor,” segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags.

Leó segist finna fyrir miklum meðbyr með nýja miðbænum og ekki síst öðrum áfanganum, sem verður risa verkefni.

Og þessi miðbær hefur gjörsamlega slegið í gegn?

“Já, hann hefur heldur betur slegið í gegn og það er bara þessi notalegi skali, þetta umhverfi, sem við lögðum okkur fram við að búa til, að gera þetta svona huggulegt og auka vellíðan fólks, sem hingað sækir og við erum að fá sama fólkið aftur og aftur og íbúarnir eru duglegir að sækja þennan miðbæ heim og duglegir að koma með sitt fólk, vini og ættingja annars staðar af landinu í heimsókn,” segir Leó.

Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns Þróunarfélags.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mörg sögufræg hús verða í næsta áfanga eins og Selfossbíó, sýslumannshúsið í Stykkishólmi, Málmeyjarhúsið í Skagafirði, Konráðshúsið í Mjóafirði og sýslumannshúsið á Eskifirði svo nokkur dæmi séu tekin. Þá verða 55 íbúðir í áfanganum og tvö ný hótel.

En hvað kostar annar áfanginn?

“Hann mun kosta á bilinu 12 til 13 milljarða”.

Og eru þeir peningar til ?

“Þeir peningar finnast á góðum stöðum,” segir Leó.

Mikill áhugi er á frekari uppbyggingu nýja miðbæjarins eins og kom skýrt fram á fjölmennum íbúafundi.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×