Fótbolti

Hamraoui gæti leikið sinn fyrsta leik eftir árásina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kheira Hamraoui hefur ekki leikið með PSG í um ár.
Kheira Hamraoui hefur ekki leikið með PSG í um ár. getty/Antonio Borga

Kheira Hamraoui er í leikmannahópi Paris Saint-Germain fyrir riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Það gæti því styst í að hún spili sinn fyrsta leik síðan hún varð fyrir fólskulegri árás fyrir tæpu ári.

Hamraoui hefur ekkert spilað síðan hópur grímuklæddra manna réðist á hana og börðu hana með járnrörum í nóvember á síðasta ári.

Aminata Diallo, samherji Hamraouis hjá Paris Saint-Germain, var handtekinn, grunuð um að hafa skipulagt árásina til að auk möguleika sína á að fá að spila með liðinu í stað Hamraouis. Diallo var svo sleppt og hún hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. 

Málið tók enn einn snúninginn þegar Diallo var aftur handtekinn á dögunum og ákærð fyrir grófa líkamsárás. Í lögregluskýrslu kemur fram að fyrir árásina hafi Diallo leitað sér upplýsinga á Google hvernig væri best að brjóta hnéskel.

Diallo yfirgaf PSG eftir síðasta tímabil en Hamraoui er enn samningsbundin Parísarliðinu og er í leikmannahópnum sem það sendi inn fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem hefst í næstu viku. Fyrsti leikur PSG í riðlakeppninni er gegn Englandsmeisturum Chelsea á fimmtudaginn. Íslenski landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með PSG.

Hamraoui kom til PSG frá Barcelona í fyrra. Hún lék áður með liðinu á árunum 2012-16. Hin 32 ára Hamraoui hefur leikið 39 landsleiki fyrir Frakkland og skorað þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×