Lífið

Koma Ísa­firði á kort kvik­mynda­gerða­manna

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Piff kvikmyndahátíðin hefst í dag.
Piff kvikmyndahátíðin hefst í dag. PIFF

Piff hátíðin (Pigeon International Film Festival) hefst í Ísafjarðarbíói í dag og stendur fram á sunnudagkvöld. Opnunarhátíðin hefst kl. 17 og strax á eftir verður sýnd bútanska myndin Lunana: Yak in the classroom sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin nú í febrúar.

 Því næst verður sýnd kanadíska kvikmyndin Happy FKN sunshine sem er saga um síðasta kaflann í lífsferli iðnaðarbæjar sem sýndur er með augum verkalýðsæskunnar í bænum. Ungmennin stofna hljómsveit og ætla sér stóra hluti – ef þeim bara tekst að sleppa úr deyjandi bænum og frá hvort öðru. Þá verða sýndar nokkrar stuttmyndir og svo hefst dagskráin að nýju kl. 16 á morgun.

Allar sýningar hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu. Helstu styrktaraðilar hennar eru kvikmyndastofnun, Ísafjarðarbær og ýmis fyrirtæki. Sýningarstaðir eru Ísafjarðarbíó, Edinborgarhúsið á Ísafirði og bókasafnið í Súðavík.

Þrír Ísfirðingar með brennandi kvikmyndaáhuga, Fjölnir Baldursson, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Baldur Páll Hólmgeirsson komu hátíðinni og hafa svo fengið til liðsinnis við sig fjölda heimamanna.

„Tilgangur hátíðarinnar er að koma Ísafirði á kort kvikmyndagerðamanna og að koma á tengslum fyrir vestfirska kvikmyndagerðamenn. Auk þess að auka breiddina í þeim myndum sem sýndar eru í kvikmyndahúsinu okkar,“ segir Fjölnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×