Fótbolti

Jóhann snýr aftur til Þór/KA

Atli Arason skrifar
Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Jóhann Kristinn Gunnarsson, nýráðinn þjálfari liðsins (fremst fyrir miðju), ásamt stjórn Þór/KA.
Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Jóhann Kristinn Gunnarsson, nýráðinn þjálfari liðsins (fremst fyrir miðju), ásamt stjórn Þór/KA. Þór/KA

Jóhann Kristinn Gunnarsson var í dag ráðinn aðalþjálfari hjá Þór/KA til næstu þriggja ára. Jóhann þekkir vel til félagsins sem hann gerði að Íslandsmeisturum árið 2012.

Jóhann tekur við liðinu af þeim Jón Stefáni Jónssyni og Perry McLachlan sem stýrðu liðinu á þessu tímabili. Jóhann þekkir vel til á Akureyri en hann var þjálfari Þórs/KA á árunum 2012-2016 en liðið endaði þá aldrei neðar en í 4. sæti deildarinnar undir hans stjórn. Þór/KA lauk ný afstöðnu tímabili í Bestu-deild kvenna í 7. sæti.

Síðustu sex ár hefur Jóhann stýrt bæði karla- og kvennaliði Völsungs en það er mikill tilhlökkun hjá Þór/KA að fá Jóhann aftur til starfa á Akureyri.

„Við í stjórninni erum rosalega ánægð með þessa ráðningu. Jói er með mikla reynslu af þjálfun og gerði Þór/KA meðal annars að Íslandsmeisturum 2012, á sínu fyrsta tímabili með liðið. Hann hefur mikinn metnað fyrir Þór/KA og veit hvað þarf til að ná árangri. Við teljum að hann sé rétti þjálfarinn fyrir okkur og hann mun klárlega bæta okkur sem lið og sem einstaklinga,“ segir í tilkynningu Þór/KA.

Ásamt Jóhanni voru þau Ágústa Kristinsdóttir og Hannes Bjarni Hannesson einnig ráðin til starfa hjá Þór/KA. Ágústa sem yfirþjálfari yngri flokka og Hannes sem sjúkra- og styrktarþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×