Innlent

Þarf í nýtt hús­næði vegna skriðu­hættu

Atli Ísleifsson skrifar
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Skriðurnar rifu með sér tíu hús og skemmdu þrjú til viðbótar, en ekkert manntjón varð.
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Skriðurnar rifu með sér tíu hús og skemmdu þrjú til viðbótar, en ekkert manntjón varð. Vísir/Arnar

Ekki er hægt að halda áfram starfsemi LungA-lýðskólans í húsnæði þess að Strandavegi 13 á Seyðisfirði vegna skriðuhættu og er því ljóst að skólinn þarf nýtt húsnæði.

Þetta kom fram í kynningu Bjartar Sigfinnsdóttur, framkvæmdastýru LungA lýðháskólans, á fundi heimastjórnar Seyðisfjarðar í Múlaþingi í gær.

Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði í desember 2020. Skriðurnar rifu með sér tíu hús og skemmdu þrjú til viðbótar, en ekkert manntjón varð.

Í fundargerð heimastjórnar kemur fram að lögð sé áhersla á að sveitarfélagið, Múlaþing, styðji við starfsemi og uppbyggingu skólans bæði heima fyrir og með samtali við viðeigandi ráðuneyti.

Björt Sigfinnsdóttir er framkvæmdastýra LungA.Aðsend

„Kynningin sýndi metnaðarfull uppbyggingaráform með nýrri námsbraut og stækkun skólans sem mun óhjákvæmilega leiða til samfélags ávinnings fyrir sveitarfélagið.

Heimastjórn vísar til Byggðaráðs að það rýni sérstaklega stuðning sveitarfélagsins við LungA skólann í fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins fyrir 2023. Heimastjórn hvetur til þess að allra leiða sé leitað til að styðja við fyrirhugaða uppbyggingu, t.d. í gegnum skipulagsgerð og innheimtu framkvæmdatengdra gjalda.

Heimastjórn vill í þessu samhengi benda á að LungA skólinn er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun sem hefur margvísleg jákvæð áhrif á samfélagið og því mikilvægt að skólinn fái verðskuldaðan stuðning,“ segir í bókun heimastjórnar.

Á heimasíðu Múlaþings má sjá að LungA skólinn sé fyrsti listalýðskólinn á Íslandi. Hann sé tilraunakenndur listaskóli, stofnaður árið 2013 og boðið er upp á tvær tólf vikna annir á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×