Innlent

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu vegna hættustigs

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Karen Ósk biðlar til fólks að vera heima á morgun.
Karen Ósk biðlar til fólks að vera heima á morgun. vísir

Björgunarsveitir um allt land eru í viðbragðsstöðu vegna óveðurs sem búist er við að verði á morgun. Rauð viðvörun tekur gildi á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi á morgun og standa fram á næstu nótt.

„Staðan er bara góð. Björgunarsveitir eru í viðbragðsstöðu núna eins og alltaf, allan sólarhringinn, allt árið. Við höfum verið að sækja fundi með veðurstofunni, almannavörnum og fleiri viðbragðsaðilum vegna þess sem koma skal og verið að undirbúa okkur undir næstu sólarhringa,“ sagði Karen Ósk Lárusdóttir, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. 

Spáð er norðan stormi víða um land á morgun, sunnudag og er rauð viðvörun í gildi á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Spáð er mikilli úrkomu sem líklegt er að falli að stórum hluta sem slydda eða snjókoma.

Biðlar til fólks að vera heima

Karen býst við að verkefni morgundagsins verði hefðbundin óveðursverkefni en muni helst snúa að föstum bílum. Hún hvetur fólk til að fylgja fyrirmælum yfirvalda.

„Hlusta á viðvaranir, fara eftir því sem lögreglan óskar eftir og Almananvarnir. Vera heima og fara varlega. Það skiptir öllu máli.“

Björgunarsveitir um allt land eru klárar.vísir/vilhelm

Unnið er að því að viðvaranir verði sendar til fólks á vissum svæðum með smáskilaboðum.

„Það er verið að skoða hvort það sé hægt að senda sms skilaboð á afmarkað svæði, ef að símar fari inn fyrir ákveðið svæði þá komi viðvörunarskilaboð um að framundan séu lokaðir fjallvegir og svo framvegis.“

Gert er ráð fyrir gríðar­legri rigningu á norðurlandi á morgun, yfir 50 milli­metrum víða. Mikill undir­búningur er í gangi á Akur­eyri til að koma í veg fyri flóða­á­stand líkt og skapaðist í bænum fyrir tveimur vikum, en mikil hætta er á raf­magns­leysi á svæðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×