Erlent

Sjö létust í sprengingu á Írlandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sprengingin reif í sig bensínstöðvarhúsið og nærliggjandi byggingar.
Sprengingin reif í sig bensínstöðvarhúsið og nærliggjandi byggingar. PA/Brian Lawless

Minnst sjö eru látnir eftir að sprenging varð á bensínstöð í Donegal á Írlandi. Átta til viðbótar liggjá á sjúkrahúsi vegna sára sem þeir hlutu í sprengingunni. 

Mikill viðbúnaður er enn á vettvangi en sprengingin varð síðdegis í gær í bænum Creeslough. Samkvæmt frétt Guardian var sprengingin svo öflug að hún reif í sig bensínstöðvarhúsið og nærliggjandi byggingar. 

Írska lögreglan hefur staðfest að fjórir hinna látnu hafi fundist í rústunum í morgun. Viðbragðsaðilar frá Norður-Írlandi hafa aðstoðað við leitina í nótt.

Leitarhundar hafa verið notaðir við aðgerðirnar og á einum tímapunkti í gærkvöldi var slökkt á öllum vélum og almenningi, sem fylgdist með, sagt að hafa hljótt svo hægt væri að hlusta eftir fólki.  

Micheál Martin, forsætisráðherra Írlands, sagði í yfirlýsingu í gærkvöldi að þjóðin syrgi fórnarlömbin í Creeslough. Sprenginin hafi verið hræðileg og hann væri í sárum vegna atburðarins. 

„Það er alveg hræðilegt og raunar hryllilegt hvað þessi hræðilegi atburður hefur haft áhrif á marga. Sprenging sem reif í sundur heilt samfélag, þar sem fólk var á leiðinni í búðina og var að sinna sínu daglega amstri,“ sagði hann í samtali við RTÉ útvarpsstöðina. 

„Ég sendi íbúunum, fjölskyldu og vinum þeirra sem hafa farist og særst mínar innstu samúðarkveðjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×