Íslenski boltinn

Vildu ekki starfa saman og voru báðir látnir fara

Sindri Sverrisson skrifar
Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson voru ráðnir til þriggja ára fyrir ári síðan.
Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson voru ráðnir til þriggja ára fyrir ári síðan. ka.is

Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, sem í fyrra voru ráðnir til þriggja ára sem þjálfarar knattspyrnuliðs Þórs/KA, hafa báðir látið af störfum. Jón Stefán segir stjórn Þórs/KA hafa tekið þá ákvörðun þar sem þeir vildu ekki starfa saman.

Þór/KA var í fallhættu í mestallt sumar en tókst með góðri rispu í ágúst og september að bjarga sæti sínu og enda í 7. sæti Bestu deildar kvenna, fimm stigum frá fallsæti. Liðið endaði því á sömu slóðum og síðustu tvö tímabil.

Jón Stefán segir í færslu á Facebook að þeir Perry hafi báðir tilkynnt stjórn að þeir vildu halda áfram að stýra Þór/KA, en að þeir teldu hagsmunum liðsins betur borgið með því að stjórnin veldi á milli þeirra. Segir hann þá hafa ólíka sýn á fótbolta og vera ólíka þjálfara, þó að þeir séu mjög góðir vinir.

„En ástæða uppsagnar okkar beggja er sum sé sú að stjórn vildi ekki gera upp á milli okkar og því væri sanngjarnast að láta okkur báða fara. Ekkert flóknara en það,“ skrifar Jón Stefán og tekur fram að niðurstaðan sé auðvitað virkilega svekkjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×