Erlent

Boðaði ekki til þingkosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen í ræðustól danska þingsins í morgun. Danska þingið kom saman í morgun eftir sumarhlé.
Mette Frederiksen í ræðustól danska þingsins í morgun. Danska þingið kom saman í morgun eftir sumarhlé. AP

Danska þingið var sett í morgun eftir sumarhlé en fyrirfram bjuggust margir við að forsætisráðherrann Mette Frederiksen myndi nýta tækifærið í stefnuræðu sinni og boða til þingkosninga. Ekkert varð þó úr því.

Danskir fjölmiðlar segja að Frederiksen hafi þess í stað rætt um ástand heimsmála og þá sérstaklega stríðið í Úkraínu, skemmdarverkin á Nord Stream-leiðslunum í Eystrasalti og hækkandi orkuverð. Þar að auki ræddi hún um loftslags- og umhverfismál og hvernig Danmörk eigi að vera „grænt heimsveldi“.

Fyrir stefnuræðu forsætisráðherrans hafði frjálslyndi miðjuflokkurinn Radikale Venstre sett forsætisráðherranum þá afarkosti að boða strax til þingkosninga eða þá að vantrauststillaga á hendur honum yrði lögð fram.

Radikale Venstre hefur gagnrýnt Frederiksen harðlega vegna ákvörðunar stjórnar hennar að lóga öllum minkum í landinu til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi ekki staðist lög.

Þingkosningar eiga að fara fram í Danmörku í síðasta lagi fyrir 3. júní á næsta ári, en forsætisráðherra getur flýtt kosningum standi vilji til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×