Erlent

Hlýtur Nóbels­verð­laun fyrir rann­sóknir á gena­mengi út­dauðra mann­tegunda

Atli Ísleifsson skrifar
Svante Pääbo.
Svante Pääbo. Nóbel

Sænski erfðafræðingurinn Svante Pääbo hlýtur Nóbelsverðlaunin í lífefnafræði og læknisfræði í ár fyrir rannsóknir sínar á erfðamengi útdauðra manntegunda og þróun mannsins.

Nóbelsnefnd Karólínsku stofnunarinnar í Svíþjóð greindi frá þessu fyrir stundu.

Pääbo starfar við Max Planck-stofnunina í Leipzig í Þýskalandi og hefur sérstaklega rannsakað erfðafræði Neanderdalsmanna.

„Með tímamótarannsóknum sínum tókst Svante Pääbo því sem enginn hélt að væri mögulegt: að kortleggja erfðir Neanderdalsmanna, útdauðum ættingja núlifandi manna,“ sagði í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar.

Nóbelsnefndinni barst alls um átta hundruð tilnefningar frá vísindasamfélaginu í ár, en það er fimmtíu manna nefnd sem tekur ákvörðun um nýjan Nóbelsverðlaunahafa.

Bandarísku vísindamennirnir David Julius og Ardem Patapoutian hlutu Nóbelsverðlaunin í lífefnafræði og læknisfræði á síðasta ári fyrir uppgötvanir sínar þegar kemur jónarásum sem opnast eða lokast við hita eða þenslu.

Greint verður frá því hver hlýtur Nóbelsverðlaunin í hinum ýmsu flokkum nú í vikunni. Grein verður frá því hver hlýtur Nóbelsverðlaun í eðlisfræði á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×