Innlent

Ekki selst fleiri miðar á árs­há­tíð lög­reglunnar síðan 1998

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna segir að lögregluþjónar kalli eftir auknum rannsóknarheimildum og rafbyssum til að auka bæði öryggi sitt í starfi og öryggi borgara landsins.

Undanfarin ár hafi komið í ljós að nokkuð hafi skort á heimildir íslensku lögreglunnar þegar hún hefur átt í alþjóðlegu samstarfi. Fjölnir var til viðtals í Reykjavík síðdegis.

„Þau okkar sem hafa starfað við rannsóknir vitum að það skortir dálítið upp á heimildir í samstarfi við önnur lönd. Til dæmis ef danska lögreglan segir: „Hér er kominn maður sem við viljum láta fylgjast með. Þetta er þekktur glæpamaður.“ Þá segjum við nei, við megum ekki gefa ykkur upplýsingar um þennan mann á meðan hann er á Íslandi.

Svona hlutir vantar dálítið upp á. Afbrotamenn stoppa ekki bara á landamærunum. Þetta er orðin alheimsvæðing og alþjóðlegur heimur. Við teljum að íslenska lögreglan hafi ekki nógu sambærilegar heimildir miðað við önnur Evrópulönd.“

Árshátíð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Alþingi Íslendinga, hafa verið sögð skotmörk í ætluðum undirbúningi hryðjuverks hér á landi. Umrædd árshátíð fer fram á morgun og er Fjölnir sjálfur búinn að kaupa miða. Ef marka má heimildir Fjölnis virðist lögreglan ekki leyfa óttanum að hafa yfirhöndina.

„Mér var sagt að það hefðu ekki selst fleiri miðar á árshátíð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðan 1998. Þetta verður stærsta árshátíð í rúmlega 20 ár,“ segir Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna í Reykjavík síðdegis.

Viðtalið við Fjölni má hlusta á í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×