Innlent

Munu reisa Angró á nýjum stað í bænum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Húsið, sem sjá má neðst í vinstra horni myndarinnar, stóð af sér skriðuföllin árið 2020 en skemmdist þó að hluta. 
Húsið, sem sjá má neðst í vinstra horni myndarinnar, stóð af sér skriðuföllin árið 2020 en skemmdist þó að hluta.  Vísir/Arnar

Til stendur að reisa sögufræga húsið Angró á Seyðisfirði á nýjum stað í bænum eftir að það féll saman í óveðrinu um helgina. Múlaþing vinnur nú að því í samvinnu við Minjastofnun að undirbúa aðgerðir á svæðinu en það hefur lengi staðið til að flytja húsið á nýjan stað.

Austurfrétt greinir frá því að þegar hafi verið tekin ákvörðun um að flytja húsið á nýjan stað en Björn Ingimarsson, sveitastjóri Múlaþings og eigandi hússins, segir í samtali við miðilinn að atburðir helgarinnar flýti aðeins fyrir því ferli frekar en annað.

Húsið stóð af sér skriðuföllin á Seyðisfirði árið 2020 en burðavirkið er talið hafa gefið sig um helgina og því hafi það trúlega verið í verra ástandi en upprunalega var talið eftir skriðurnar.

Múlaþing og Minjastofnun funduðu saman í gær og stendur til að fjarlægja húsið sem fyrst. Húsið hafi verið í friðunarferli og ljóst að aðeins hluti þess yrði nýttur í endurbygginguna en greina þurfi og flokka þá hluti sem Minjavernd vilji halda í.

Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið að húsið verði tekið niður en heillegt efni sett í gáma og geymt þar til húsið verður endurbyggt á ný. Ljóst sé að hafa þurfi hraðar hendur þar sem foktjón geti orðið í millitíðinni.

Húsið var byggt árið 1880 af Ottó Wathne, sem oft er kallaður faðir Seyðisfjarðar, en á sínum tíma var húsið notað undir síldarverkun, verslun og íbúð. Frá þeim tíma hefur það þjónað ýmsum hlutverkum, þar á meðal sem geymslu- og sýningarhúsnæði fyrir Tækniminjasafn Austurlands, sem var tæmt eftir skriðurnar árið 2020.

Mikið tjón víða

Rauð veðurviðvörun var í gildi á Austfjörðum á laugardag og appelsínugul viðvörun í gær en ljóst er að mikið tjón hafi þar orðið. Morgunblaðið hefur það eftir forstöðumanni hjá Sjóvá að ljóst sé að tjónið nemi tugum milljóna.

Veðurofsinn var víða, þar á meðal á Norðurlandi eystra.  Sjór gekk á land á Eyrinni á Akureyri með tilheyrandi tjóni og tré rifnuðu upp með rótum og rúður brotnuðu á Austurlandi. Þá komu björgunarsveitir erlendum ferðamönnum til bjargar í Möðrudalsöræfum. 

Karen Ósk Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðarmála hjá Landsbjörg, segir verkefnin á landinu öllu hafa verið yfir tvö hundruð talsins yfir helgina þar sem um 350 björgunarsveitarmenn hafi verið að störfum.


Tengdar fréttir

„Ég var skelfingu lostinn“

Bandarískur ferðamaður sem setið hefur fastur á Möðrudalsöræfum í tæpan sólarhring varð skelfingu lostinn þegar rúður í bílnum hans sprungu í óveðrinu í gær. Hann segist heppinn að hafa ekki stórslasast í látunum. Rúmlega sjötíu ferðamenn leituðu skjóls hjá Ferðaþjónustunni Fjalladýrð í Möðrudal eftir að þeir urðu strand vegna veðurs.

Fyrsta haust­lægðin skall með krafti á landið

Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast í dag við að bjarga ferðamönnum sem sátu fastir í bílum sínum í veðurofsanum. Rúður hafa brotnað í bílum og tré rifnað upp frá rótum. Það flæddi yfir götur og inn í hús á Akureyri og á stórum hluta landsins varð rafmagnslaust í dag.

„Það er allt í skrúfunni“

„Það er allt í skrúfunni, það er bara svoleiðis,“ segir formaður aðgerðastjórnar björgunarsveita á Austurlandi. Veðrið sé mjög slæmt á Austfjörðum og spár virðast ætla að ganga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×