Innlent

„Við eigum ekki að haga okkur svona“

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk (t.v.) og skot úr nýju auglýsingaherferðinni.
Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk (t.v.) og skot úr nýju auglýsingaherferðinni. Heimasíða Virk

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK hefur ýtt úr vör nýju átaki sem snýr að því að koma í veg fyrir og varpa ljósi á kynferðislegt áreiti á vinnustöðum. Átakið hófst með myndbandi þar sem málefninu er skellt upp með húmor, það mætti segja að orðatiltækið „öllu gríni fylgir einhver alvara“ eigi við hér.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk segir sjóðinn taka á móti fólki sem glími við afleiðingar allskyns ofbeldis, stærsta hlutverk þeirra sé að taka á móti fólki í starfsendurhæfingu en forvarnir séu þeim einnig mikilvægar.

„Svo höfum við hjá Virk líka hlutverk í forvörnum, að reyna að koma í veg fyrir að fólk hrellist af vinnumarkaði og þetta er bara partur af því hlutverki okkar. Það er að vekja upp umræðu og í raun og veru er markmiðið að koma í veg fyrir þetta, að sýna fram á að þetta er ekki í lagi, að við eigum ekki að haga okkur svona,“ segir Vigdís.

Vildu drepa setninguna „má ekkert lengur“

Herferðina vann Virk í samstarfi við Hvíta húsið en framleiðslufyrirtækið Republik vann einnig að verkinu.

Myndbandinu var leikstýrt af Reyni Lyngdal og má í myndbandinu sjá félaga úr kórnum Vocal project ásamt leikurum sem voru fengnir í aðalhlutverkin.

Aðspurð hvernig þessi sýn á verkefnið varð til segir Rósa Hrund Kristjánsdóttir, listrænn stjórnandi hjá Hvíta húsinu að þau vildu gera eitthvað sem myndi varpa ljósi á þessi málefni samfélagsins.

Hún segir setningu sem er í miklu aðalhlutverki í myndbandinu, „það má ekkert lengur“ vera slengt fram þess að stöðva framþróunina sem sé í gangi.

„Okkur langaði svolítið svona í raun að drepa þetta viðhorf samfélagsins og drepa þessa setningu,“ segir Rósa en hugmyndin og vinnan var í höndum Hvíta hússins.

Myndbandið sem um ræðir má sjá í spilaranum hér að ofan en frekari upplýsingar um herferðina er hægt að finna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×