Handbolti

Telur að Valur yrði neðarlega í Danmörku

Sindri Sverrisson skrifar
Valsmenn hafa borið höfuð og herðar yfir önnur íslensk lið síðustu ár.
Valsmenn hafa borið höfuð og herðar yfir önnur íslensk lið síðustu ár. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Arnór Atlason, sem þjálfað hefur í Danmörku um árabil, segir að miðað við það að Olís-deild karla í handbolta sé áhugamannadeild þá séu liðin á Íslandi að „gera það ótrúlega gott“.

Arnór var í viðtali við Seinni bylgjuna í vikunni og var meðal annars spurður að því hvernig liðið sem drottnaði yfir íslenskum handbolta á síðustu leiktíð, Valur, myndi plumma sig í dönsku úrvalsdeildinni:

„Þetta er alveg ótrúlega erfið spurning en ég er ekki í neinum vafa um það að ef að Valur dregst til dæmis gegn þeim dönsku liðum sem eru í Evrópukeppninni núna, eins og Skjern eða Skanderborg Aarhus eða Bjerringbro, þá er ég viss um að Valur gæti staðist þeim snúning í einum leik. Ég efast um að þeir [Valsmenn] myndu enda ofar en þessi lið í riðlinum en þeir gætu alveg gefið þeim leik.

Þeir yrðu að berjast neðarlega í [dönsku] deildinni, myndi ég halda, en það er rosalega erfitt að segja. Akkúrat Valur myndi geta strítt mörgum liðum hérna í Danmörku,“ sagði Arnór.

„Menn heima eru að gera þetta ótrúlega vel miðað við aðstæður“

Arnór hefur verið aðstoðarþjálfari stórliðs Álaborgar frá árinu 2018 og þjálfar einnig danska U20-landsliðið. Hann var spurður að því í hverju munurinn fælist varðandi stöðu Vals hér heima miðað við hvernig liðinu myndi ganga í Danmörku:

„Þeir myndu þarna mæta liðum með svipaða „physique“. Þeir virðast geta hlaupið yfir öll lið á Íslandi en myndu ekki geta gert það að sama leyti í allri deildinni í Danmörku. Hér eru liðin líka með breiðari hópa, 15-16 leikmenn sem alla er hægt að nota,“ sagði Arnór og bætti við að miðað við aðstæður væri staðan í íslenskum handbolta afar góð:

„Stóri munurinn er að þetta er atvinnumannadeild hér og menn heima eru að gera þetta ótrúlega vel miðað við aðstæður. Fólk er bara í skóla og vinnu með þessu. Ef maður hugsar út í það þá eru liðin heima að gera það ótrúlega gott. Liðin eru ótrúlega vel þjálfuð öll, færir þjálfarar í öllum liðum í deildinni, svo þetta er mjög fín deild á marga vegu.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér að neðan en viðtalið við Arnór hefst eftir nítján mínútur af þættinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×