Erlent

Kasakar breyta nafni höfuð­borgarinnar aftur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Höfuðborgin fær nú aftur heitið Astana.
Höfuðborgin fær nú aftur heitið Astana. Getty/Antoine Gyori

Yfirvöld í Kasakstan hafa ákveðið að breyta nafni höfuðborgarinnar aftur í Astana. Árið 2019 var nafninu breytt í Nur-sultan til að heiðra fráfarandi forseta landsins, Nursultan Nazarbayev.

Nazarbayev hafði verið leiðtogi Kasakstan í 29 ár þegar hann sagði af sér í mars árið 2019. Hann varð leiðtogi Kommúnistaflokksins í Kasakstan árið 1990 og forseti landsins árið eftir. Í Kasakstan eru lög sem sjá til þess að engin takmörk eru á því hversu oft forseti landsins getur verið endurkjörinn.

Til að heiðra forsetann ákvað kasaska þingið og nýr forseti landsins, Kassym-Jomart Tokayev, að breyta nafni höfuðborgarinnar í Nur-sultan til að heiðra forsetann fyrrverandi.

Nú, rúmum þremur árum síðar, hefur forseti landsins samþykkt að breyta nafni borgarinnar aftur í Astana. Samþykktin kom í kjölfar þess að hópur þingmanna óskaði eftir því að nafninu yrði breytt.

Orðið Astana þýðir einfaldlega „höfuðborg“ á kasöksku en borgin varð höfuðborg Kasakstan árið 1997 fyrir tilstilli Nazerbayev. Fram að því hafði borgin Almaty verið höfuðborg landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×