Erlent

Lífs­tíðar­fangelsi fyrir kennaram­orðin í Mal­mö

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð í framhaldsskólanum Malmö Latin í mars síðastliðinn.
Árásin var gerð í framhaldsskólanum Malmö Latin í mars síðastliðinn. AP

Dómstóll í Malmö í Svíþjóð hefur dæmt átján ára karlmann, Fabian Cederholm, í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt tvo kennara við framhaldsskólann Malmö Latin í vor.

Dómurinn féll í morgun og segja sænskir fjölmiðlar frá því að maðurinn sé fyrsti átján ára einstaklingurinn í landinu til að verða dæmdur í lífstíðarfangelsi eftir að lögum var breytt.

Svona skildi maðurinn við sig inni á baðherbergi áður en hann réðst til atlögu.Sænska lögreglan

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða aðstandendum hinna látnu alls um milljón sænskra króna í skaðabætur, um þrettán milljónir íslenskra króna.

Maðurinn játaði sök í málinu og sagði að tilviljun ein hafi ráðið því hverja hann hafi ráðist á. Við aðalmeðferð teiknuðu lögmenn árásarmannsins upp mynd af dreng sem hafi átt erfiða æsku og sætt miklu einelti.

Maðurinn réðst til atlögu mánudaginn 21. mars síðastliðinn þar sem hann notaðist með tvo hnífa og öxi. 

Starfsfólk skólans hafði margsinnis tilkynnt um einkennilega hegðun hans áður en árásin átti sér stað. Hann var handtekinn tíu mínútum eftir að tilkynning um árásina barst til lögreglu. Árásarmaðurinn hringdi sjálfur í lögregluna og tilkynnti hvað hann hafði gert. Um fimmtíu nemendur voru inni í skólanum þegar atvikið átti sér stað.

Kennarnir tveir sem létust í árásinni voru konur á sextugsaldri. 


Tengdar fréttir

Á­rásar­maðurinn í Mal­mö vildi verða kennari

Árásarmaðurinn sem myrti tvo kennara í Malmö á mánudag vildi sjálfur verða kennari. Starfsfólk skólans hafði margsinnis tilkynnt um einkennilega hegðun hans áður en árásin átti sér stað.

Einn handtekinn en ekki ljóst hvað átti sér stað

Lögregla var með töluverðan viðbúnað við framhaldsskóla í Malmö í dag þar sem talið var að fjöldi nemenda hafi slasast. Að því er kemur fram í frétt sænska ríkisútvarpsins SVT liggur ekki fyrir hvað átti sér stað við skólann. Aftonbladet hefur það eftir heimildum sínum að ungur maður vopnaður exi og hníf hafi verið að verki en lögregla hefur ekki gefið neitt út. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×