Viðskipti innlent

Rúm­lega hálf milljón far­þega ferðaðist með Icelandair í ágúst

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group. Stöð 2/Egill

Alls flutti Icelandair 514 þúsund farþega í ágústmánuði en sætanýting var 89 prósent. Farþegafjöldinn tæplega tvöfaldaðist en í ágúst í fyrra voru þeir 264 þúsund talsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Farþegar í millilandaflugi voru 489 þúsund og í innanlandsflugi 25 þúsund talsins.

Fjöldi farþega sem kom til Íslands var 219 þúsund og frá Íslandi 48 þúsund. Tengifarþegar voru 221 þúsund eða 45 prósent af heildarfjölda millilandafarþega. Stundvísi véla var 74 prósent og hefur aukist frá því í síðasta mánuði.

Sætanýting í millilandaflugi var 89 prósent samanborið við 72 prósent í sama mánuði í fyrra. Í tilkynningunni segir að aukin sala á Saga Premium sætum sé hluti af þeirri aukningu.

„Sumarið hefur gengið vel hjá Icelandair og í heild hefur félagið flutt um 1,4 milljón farþega í júní, júlí og ágúst, álíka marga og allt árið 2021. Hlutfall tengifarþega er einnig sífellt á uppleið sem er til marks um aukið jafnvægi í leiðakerfinu. Starfsfólk félagsins hefur staðið sig ótrúlega vel í þessari uppbyggingu og veitt framúrskarandi þjónustu, þrátt fyrir fjölda áskorana sem komið hafa upp undanfarna mánuði vegna afleiðinga heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×