Klinkið

Halla ráðin yfirmaður eignastýringar LSR

Ritstjórn Innherja skrifar
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er stærsti lífeyrissjóður landsin og var með eignir upp á um 1.350 milljarða í lok síðasta árs. 
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er stærsti lífeyrissjóður landsin og var með eignir upp á um 1.350 milljarða í lok síðasta árs. 

Halla Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem nýr forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóði landsins, samkvæmt heimildum Innherja.

Halla, sem var fyrir sjóðstjóri á eignastýringarsviði sjóðsins með áherslu á erlendar fjárfestingar, hefur starfað hjá LSR undanfarin fimmtán ár. Hún er viðskiptafræðingur að mennt auk þess að hafa lokið meistaragráðu í fjármálum við Boston College háskólann í Bandaríkjunum.

Halla hefur starfað hjá LSR frá árinu 2006.

Tekur hún við sem yfirmaður eignastýringarsviðs LSR af Birni Hjaltested Gunnarssyni sem lét formlega af störfum í lok júnímánaðar eftir að hafa stýrt því frá árinu 2015. Í kjölfarið var starfið auglýst laust til umsóknar.

Í árslok 2021 var LSR, sem er á meðal stærstu hluthafa í flestum innlendum félögum í Kauphöllinni, með eignir í stýringu að fjárhæð um 1.350 milljarða króna. Sjóðurinn var með um 10 prósenta hreina raunávöxtun í fyrra en síðustu fimm ár hefur raunávöxtun LSR verið að meðaltali um 8,3 prósent.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×