Rúnar hefur stýrt viðskiptum á eigin reikning Arion banka á verðbréfamörkuðum frá árinu 2015. Þar áður var hann hjá Straumi fjárfestingabanka, forvera Kviku banka, auk þess að hafa meðal annars verið framkvæmdastjóri eigin viðskipta hjá Saga Capital og starfað um skeið hjá Kaupþingi.
Talsvert hefur verið um mannabreytingar hjá Arion banka á undanförnum mánuðum.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem var aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fjárfestingabanka- og fyrirtækjasviðs, lét sem kunnugt er af störfum í byrjun apríl samhliða því að vera ráðinn forstjóri SKEL fjárfestingafélagi.
Tengt þeim breytingum sagði Lýður Þorgeirsson starfi sínu lausu sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion og var Hreiðar Már Hermannsson, sem hafði unnið við sérhæfðar lánveitingar á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, ráðinn í hans stað. Á sama tíma hætti Kristján Einarsson, sem stýrði lánasviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja, og réð sig yfir til Kviku banka en við hans starfi tók Elísabet Árnadóttir sem hefur starfað hjá Arion banka frá árinu 2000.
Þá lét Sigríður Guðmundsdóttir einnig af störfum sem innri endurskoðandi Arion fyrr í sumar og var Anna Sif Jónsdóttir ráðin í hennar stað. Anna Sif var áður innri endurskoðandi Kviku banka í nærri áratug.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.