Erlent

Tók upp flugferðir sínar yfir Úkraínu og birti til minningar fallins félaga

Samúel Karl Ólason skrifar
BeFunky-collage

Flugher Úkraínu birti í morgun myndband sem einn af flugmönnum hersins gerði til minningar um annan. Myndbandið sýnir flugmann, sem heitir Ivan, fljúga yfir Úkraínu í mismunandi verkefnum og skjóta eldflaugum að skotmörkum.

Ivan tók myndbandið upp með myndavél sem hann bar á flughjálmi sínum. Myndbandið er sagt til minningar um Yevhen Lysenko, flugmann sem féll í átökum við Rússar í mars.

Ein eldflaugin sem Ivan skýtur er sögð vera AGM-88 HARM eldflaug sem fékkst frá Bandaríkjunum en þær eru þróaðar til að elta uppi merki frá ratsjám og sprengja þær í loft upp.

Rússar héldu því fram snemma eftir að innrás þeirra í Úkraínu hófst í febrúar að þeir hefðu grandað úkraínska flughernum og tryggt sér yfirráð í lofti yfir Úkraínu. Rússar segjast hafa skotið niður mun fleiri orrustuþotur en Úkraínumenn hafa átt.

Flugher Úkraínu er þó enn virkur og hefur tekið þátt í gagnárásunum sem hófust í Kherson-héraði í gærmorgun.

Í morgun sögðust Rússar hafa skotið niður 278 herflugvélar Úkraínumanna, 148 þyrlur, 1.837 dróna og grandað 370 loftvarnarkerfum.

Þegar innrásin hófst áttu Úkraínumenn 125 herflugvélar og allar voru þær frá tímum Sovétríkjanna. Einungis örfáar þeirra höfðu verið uppfærðar á undanförnum árum, samkvæmt frétt Forbes frá því í vor.

Slóvakar og aðrir bandamenn Úkraínu hafa sent gamlar orrustuþotur frá tímum Sovétríkjanna til Úkraínu frá því innrásin hófst en Úkraínumenn eru þrátt fyrir það langt frá því að hafa átt 270 herþotur.

Sérfræðingar sem halda utan um lista yfir hergögn sem búið er að granda í Úkraínu segja Úkraínumenn hafa misst 37 orrustuþotur frá því innrásin hófst. Þá hafi Úkraínumenn misst fjórar flutningavélar og þrettán herþyrlur.

Þessar tölur ná eingöngu yfir hergögn sem hægt er að staðfesta með myndefni að hafi verið grandað.

Rússar eru sagðir hafa misst 51 orrustuþotu, eina flutningavél og 49 herþyrlur.


Tengdar fréttir

Úkraínuforseti skorar á Rússa að leggja á flótta frá Kherson

Óstaðfestar fregnir eru um stórsókn úkraínskra hersveita í Kherson héraði í suðurhluta Úkraínu. Forseti landsins skorar á rússneskar hersveitir að leggja á flótta og segir að Úkraínumenn muni endurheimta landamæri sín á öllum vígstöðvum.

Segjast hafa brotið sér leið í gegnum varnir Rússa

Úkraínumenn segjast hafa gert umfangsmiklar gagnárásir gegn Rússum í Kherson-héraði í Suður-Úkraínu. Embættismenn segja gagnárásirnar hafa skilað árangri og þeir hafi brotið sér leið í gegnum varnir Rússa á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×