Erlent

Pakistanar kalla eftir aðstoð vegna gífurlegra flóða

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst milljón heimili eru sögð eyðilögð og gífurlegar skemmdir hafa orðið á uppskeru í Pakistan.
Minnst milljón heimili eru sögð eyðilögð og gífurlegar skemmdir hafa orðið á uppskeru í Pakistan. EPA/REHAN KHAN

Ráðamenn í Pakistan segja ríkið nauðsynlega þurfa aðstoð til að bregðast við miklum flóðum þar í landi. Minnst þúsund eru látnir vegna flóðanna og eru þau sögð hafa valdið gífurlegum skaða víðsvegar um landið.

Hjálp er byrjuð að berast til Pakistan. Meðal annars er byrjað að senda neyðarbirgðir, matvæli, tjöld og annað til landsins en Bilawal Bhutto-Zardari, utanríkisráðherra, segir Pakistan þurfa fjárhagsaðstoð.

„Ég hef aldrei séð eyðileggingu á þessum skala,“ sagði hann í viðtali við Reuters. „Ég á erfitt með að koma orðum að því, þetta er yfirþyrmandi.“ Ráðherrann sagði að hin fordæmalausa rigning sem leiddi til flóðanna hefðu eyðilagt stóran hluta af uppskeru Pakistans.

Fyrir hamfarirnar stóðu Pakistanar frammi fyrir umfangsmiklum efnahagsvandræðum. Talið er að flóðin muni koma mjög niður á landsframleiðslu í Pakistan. 

Nærri því milljón heimili eru sögð hafa eyðilagst í flóðunum. Yfirvöld segja að ástandið sé verra en árið 2010, þegar sautján hundruð manns dóu í flóðum.

AP fréttaveitan hefur eftir Shabaz Sharif, forsætisráðherra, að ekki hafi rignt jafn mikið í Pakistan í þrjá áratugi. Sharif heitir því að öllum þeim sem hafi misst heimili sín verði komið í skjól.

Fólk sem AP ræddi við segist þó ekki bara hafa misst heimili sín. Þau hafi misst lífsviðurværi sitt og uppskeru.


Tengdar fréttir

Neyðar­á­standi lýst yfir víða í Pakistan

Hamfaraflóð í Pakistan hafa nú dregið tæplega þúsund manns til dauða síðan í júní. Flóðin eru þau mestu í seinni tíð og þykja sambærileg gríðarlegum flóðum sem urðu í landinu 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×