Sport

„Stórkostlegt fyrir félagið að verða bikarmeistari eftir ellefu ára bið“

Andri Már Eggertsson skrifar
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, með bikarinn
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, með bikarinn Vísir/Hulda Margrét

Valur vann Breiðablik 1-2 í úrslitum Mjólkurbikarsins. Þetta er fjórtándi bikarmeistaratitill Vals og var Pétur Pétursson, þjálfari Vals, afar ánægður með sigurinn.

„Það er stórkostlegt fyrir félag eins og Val að verða bikarmeistari eftir ellefu ára bið,“ sagði Pétur Pétursson í samtali við Vísi eftir leik.

Pétri fannst spilamennska Vals í síðari hálfleik standa upp úr og fannst honum hún töluvert betri heldur en í fyrri hálfleik.

„Mér fannst við rólegar í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik spiluðum við okkar leik, pressuðum þær eins og við lögðum upp með. Stelpurnar spiluðu frábærlega og áttu skilið að vinna þennan leik.“

„Þegar þessi lið mætast þá koma mörk sem eru gegn gangi leiksins og það er bara hluti af leiknum.“

Pétur var ánægður með seinni hálfleikinn þar sem spil Vals gekk upp líkt og Pétur lagði upp með fyrir leik.

„Mér fannst allt sem við vildum gera ganga upp í seinni hálfleik og stelpurnar spiluðu stórkostlega vel.“

Breiðablik lagði allt í sölurnar til að ná inn jöfnunarmarki á lokamínútunum og viðurkenndi Pétur að hann var orðinn smeykur.

„Ég er alltaf stressaður og maður veit aldrei hvað getur gerst fyrr en dómarinn flautar leikinn af,“ sagði Pétur léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×