Innherji

Seðlabankinn hækkar stýrivexti í 5,5 prósent, ekki verið hærri í sex ár

Hörður Ægisson skrifar
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur hækkað vexti bankans um 3,5 prósentur það sem af er ári til að stemma stigu við mikilli verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntingum.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur hækkað vexti bankans um 3,5 prósentur það sem af er ári til að stemma stigu við mikilli verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntingum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans verða því 5,5 prósent. Verðbólguhorfur hafa versnað samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans og er gert ráð fyrir að verðbólgan nái hámarki undir lok ársins og verði þá tæplega 11 prósent.

Vaxtahækkunin var í samræmi við spár greinenda og markaðsaðila en samkvæmt könnun Innherja, sem var gerð dagana 17. til 19. ágúst og greint frá í fyrradag, þá gerði meirihluti ráð fyrir því að peningastefnunefnd bankans myndi hækka vexti um 75 punkta eða meira á fundi sínum í dag.

Þetta er fjórða vaxtahækkun bankans frá áramótum og hafa vextirnir það sem af er ári verið hækkaðir um samanlagt 3,5 prósentur. Meginvextir Seðlabankans hafa núna ekki verið hærri frá því í ágústmánuði árið 2016.

Í uppfærðri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem er birt í Peningamálum, kemur fram að horfur séu á tæplega sex prósenta hagvexti í ár en í fyrri spá bankans frá því í maí var gert ráð fyrir um 4,8 prósenta hagvexti.

„Stafar það einkum af þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu. Störfum heldur áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og meiri spenna hefur myndast í þjóðarbúinu en áætlað var í maí,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Tólf mánaða verðbólga mældist 9,9 prósent í júlí en án húsnæðis nemur hún 7,5 prósentum. Vísbendingar eru um að tekið sé að hægja á miklum verðhækkunum á íbúðamarkaði en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,1 prósent í síðasta mánuði – nokkuð minna en markaðsaðilar höfðu búist við – og á síðustu tólf mánuðum er það því upp um 25,5 prósent.

Peningastefnunefndin segir að verri verðbólguhorfur en áður endurspegli kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en var áætlað í maí og eins „þrálátari“ hækkanir á húsnæðimarkaði ásamt meiri alþjóðlegri verðbólgu. Verðbólguvæntingar hafi einnig hækkað enn meira á flesta mælikvarða.

Telur nefndin því „líklegt“ að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólgan hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara,“ segir í yfirlýsingu hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×