Erlent

Flótti frá Kænugarði fyrir þjóðhátíðardaginn: „Bregðumst kröftuglega við hverri árás“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þjóðhátíðardagur Úkraínu verður á morgun en 31 ár eru síðan Úkraína lýsti yfir sjálfstæði frá Sovíetríkjunum.
Þjóðhátíðardagur Úkraínu verður á morgun en 31 ár eru síðan Úkraína lýsti yfir sjálfstæði frá Sovíetríkjunum. Getty

Margir flýja nú frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, vegna ótta við árás á borgina á þjóðhátíðardegi Úkraínu sem verður á morgun, 24 ágúst. Þann dag árið 1991 lýsti Úkraína yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum, fjórum mánuðum fyrir fall Sovíetríkjanna.

Alex Rodnjanskí, ráðgjafi Úkraínuforseta, greindi frá þessu í samtali við BBC í dag. Hann sagði fólk óttast það að Rússar láti til skarar skríða og hefji árás á borgina á morgun, miðvikudag.

„Fólk bregst við fréttum. Fólk sér til þess að hafa viðbragðsáætlanir og vill ekki vera í miðbæ Kænugarðs þar sem byggingar ríkisstjórnarinnar eru,“ segir Rodnjanskí og bætir við að Rússar séu að reyna að bæta upp fyrir lélegt gengi á vígvellinum að undanförnu.

„Það er líklegt að þeir reyni þetta til að sýna fram á einhvern árangur, bæta upp fyrir í raun allar hrakfarir sem þeir hafa lent í á undanförnum sex mánuðum.“

Í dag lýsti Selenskí því yfir að hverri árás Rússa á þjóðhátíðardaginn verði mætt af krafti. Hann óttast það að Rússar muni reyna eitthvað „sérlega ógeðslegt“ á þjóðhátíðardaginn.

Ummæli Rodnjanskís koma nú í kjölfar þess að Bandaríkjamenn vöruðu við því að Rússar gætu, á næstu dögum, bætt í árásir á innviði Úkraínu og aðstöðu hins opinbera í landinu. Varnarmálaráðuneyti Úkraínu hefur ráðlagt Úkraínumönnum að fara varlega á þjóðhátíðardaginn með vísan til hótana Rússa.


Tengdar fréttir

Segja morðingjann hafa verið með tólf ára dóttur sinni

Ráðamenn í Rússlandi saka leyniþjónustu Úkraínu um að bera ábyrgð á því að rússnesk kona dó í bílasprengju nærri Moskvu um helgina. Úkraínsk kona er sögð hafa gert árásina og flúið til Eistlands. Yfirlýsingar Rússa hafa mætt miklum efasemdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×