Íslenski boltinn

„Síðustu tveir leikir eru ekki boðlegir hvað varðar mörk á okkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Varnarleikur Stjörnunnar veldur Ágústi Gylfasyni hugarangri.
Varnarleikur Stjörnunnar veldur Ágústi Gylfasyni hugarangri. vísir/hulda margrét

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, sagði að sigur KA á hans mönnum í Bestu deildinni í kvöld, 2-4, hafi verið sanngjarn.

„Ég held það. Síðustu tveir leikir eru ekki boðlegir hvað varðar mörk á okkur. Við erum búnir að fá á okkur tíu mörk í síðustu tveimur leikjum og þú færð ekkert út úr því,“ sagði Ágúst eftir leik.

„Við þurfum að sleikja sárin í kvöld og á morgun og fara yfir hlutina. Við eigum erfiðan leik í Eyjum um næstu helgi þannig við þurfum að klárlega að gera eitthvað.“

En hvað fannst Ágústi Stjarnan gera vitlaust í varnarleiknum í kvöld?

„Fyrst og fremst slitnaði á milli og við gáfum þeim færi á að sækja hratt á okkur. Svo vorum við heilt yfir linir og fórum ekki almennilega í návígi. Það eru grunnatriði sem við þurfum að laga. Það ætti að vera auðvelt og er kannski spurning um hugarfar,“ svaraði Ágúst.

Hann segir að Stjarnan megi ekki sofa á verðinum því annars gæti liðið misst af sæti í efri helmingi Bestu deildarinnar.

„Klárlega. Við getum ekki horft á hin liðin í kringum okkur fá þrjú stig og sitja eftir. Það gengur ekki. Við þurfum að stíga á bensíngjöfina og gera betur,“ sagði Ágúst að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×