Fram kemur í skýrslu stjórnar að rekstur félagsins hafi mótast mjög af áhrifum Covid-19, sem leiddi meðal annars til þess að verslunum var tímabundið lokað, en á sama tíma hafi netverslun „stóraukist“.
Heildarvelta Drífu nam 3.290 milljónum króna og jókst um 82 prósent milli ára. Veltan er nú orðin 94 prósent af því sem hún var árið 2019 en þá nam hagnaður fyrirtækisins ríflega 300 milljónum.
Icewear hannar, framleiðir og selur útivistarfatnað, ullarvörur og gjafavöru fyrir bæði eigin verslanir og til heildsölu ásamt því að vera umboðs- og dreifingaraðili fyrir mörg erlend merki.
Rekstrarsaga fyrirtækisins, sem var upphaflega prjónastofa á Hvammstanga, nær aftur til ársins 1972. Stærsti eigandi Drífu með 90 prósenta hlut er Ágúst Þór Eiríksson sem kom inn í fyrirtækið árið 1984.
Að meðaltali störfuðu 72 starfsmenn hjá Drífu í fyrra en félagið nýtti úrræði stjórnvalda á borð við hlutabótaleiðina og viðspyrnustyrki á árinu.