Innlent

Ekkert úti­vistar­veður við gos­stöðvarnar í dag

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan mun senda frá sér tilkynningu þegar gosstöðvarnar opna að nýju.
Lögreglan mun senda frá sér tilkynningu þegar gosstöðvarnar opna að nýju. Vísir/Vilhelm

Lokað er inn á gossvæðið í Meradölum í dag og verða allir sem ætla Suðurstrandarveginn stoppaðir og rætt við þá. Spáð er vonskuveðri í dag, allt að 23 metrum á sekúndu ásamt talsverðri rigningu.

„Þeir sem ætla að laumast framhjá, þeir fá tiltal frá lögreglu og verður vísað í burtu af svæðinu,“ sagði Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu í samtali við fréttastofu í gærkvöldi.

Alls fóru 4.847 manns um gossvæðið í gær samkvæmt tölum Ferðamálastofu en viðbragðsaðilar segja að gera megi ráð fyrir að þessar tölur séu í raun mun hærri.

Þrátt fyrir margmenni var róleg vakt hjá viðbragðsaðilum í gær, einungis þrjú atvik skráð. Í öllum þeim var um að ræða göngumenn sem höfðu meitt sig lítillega.

„Þar er spáð suðaustan hvassviðri eða stormi, fimmtán til 23 metrar á sekúndu, og talsverðri rigningu. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 metrum á sekúndu,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar um veðrið á Suðurlandi í dag.


Tengdar fréttir

Skellt í lás á morgun

Þeim sem ætla að skoða eldgosið í Meradölum á morgun verður snúið við þar sem svæðinu verður lokað vegna slæms veður sem ganga á yfir svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×