Erlent

Slags­mál brutust út eftir að úr­slitin voru til­kynnt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Margir gestir athafnarinnar voru ekki sáttir með úrslitin.
Margir gestir athafnarinnar voru ekki sáttir með úrslitin. AP/Sayyid Abdul Azim

Slagsmál brutust út meðal diplómata og annarra starfsmanna keníska ríkisins eftir að tilkynnt var um úrslit forsetakosninganna þar í landi í gær. Fjórir meðlimir kjörnefndarinnar una ekki úrslitunum.

Í gær var tilkynnt að William Ruto, varaforseti Kenía, hafi sigrað forsetakosningarnar þar í landi. Ruto hlaut 50,4 prósent atkvæða en mikil óánægja hefur verið með kosningarnar, þar á meðal hjá andstæðingi Ruto og kjörnefnd kosninganna.

Raila Odinga, mótframbjóðandi Ruto, hafði sakað Ruto um kosningasvindl nokkrum dögum fyrir kosningarnar. Þá hafa fjórir af sjö meðlimum kjörnefndarinnar ekki staðfest úrslit kosninganna þar sem þeir töldu þær ekki vera nægilega gagnsæjar.

Er úrslitin voru tilkynnt í gær brutust út slagsmál milli fjölda ráðamanna, diplómata og annarra opinberra starfsmanna keníska ríkisins. Herinn þurfti að skarast í leikinn og fylgja fólki úr húsi. 

Í borgum landsins hafa fjölmargir mótmælt úrslitum kosninganna og hefur lögreglan ítrekað notast við táragas til þess að stöðva þau. Það eru þó ekki einungis mótmælendur sem eru á götum úti en stuðningsmenn Ruto hafa einnig safnast saman til að fagna sigri síns manns.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ókyrrð verður í Kenía eftir kosningar en það gerðist einnig árið 2007 og 2017. Odinga setti sjálfan sig sem forseta árið 2017 eftir að hafa tapað gegn sitjandi forseta, Uhuru Kenyatta, í kosningunum það ár. Athöfnin var þó einungis metin táknræn en Odinga var mikill stjórnarandstæðingur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×