Erlent

Eldri kona drepin af krókódíl

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta er ekki krókódíllin sem réðst á konuna en hann er af sömu tegund.
Þetta er ekki krókódíllin sem réðst á konuna en hann er af sömu tegund. Getty

Lík 88 ára gamallar konu fannst í tjörn í Suður-Karólínu í gær en talið er að hún hafi verið drepin af krókódíl (flatmunna) er hún var í garði sínum. Konan er sögð hafa búið í íbúðakjarna fyrir eldra fólk í Hilton Head Island.

Lögreglunni barst um hádegisleytið í gær tilkynning um lík í tjörn nærri íbúðakjarnanum. Þegar lögregluþjóna bar að garði, sáu þeir stóran krókódíl með lík konunnar. Hún hefur ekki verið nafngreind enn, samkvæmt frétt NBC News.

Talskona fógetans í Hilton Head segir að krókódíllinn hafi staðið vörð um líkið. Það hafi tekið um klukkustund að ná því.

New York Times segir að krókódíllinn hafi verið karlkyns. Hann var um þriggja metra langur og var svæfður og svo aflífaður. Vísindavefurinn segir að flatmunnar verði allt að 4,5 metra langir.

Þetta er í annað sinn sem krókódíll ræðast á eldri borgara í íbúðakjarnanum á fimm árum. Síðasta árás var ekki bannvæn.

Banvænar flatmunna-árásir eru sjaldgæfar í Bandaríkjunum. Frá árinu 2000 hafa átján árásir flatmunna á fólk verið skráðar í Suður-Karólínu. Fimm þeirra voru bannvænar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×