Innlent

Fjórtán ára meðhjálpari á Rauðasandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tryggvi Sveinn er ekki nema fjórtán ára gamall en hann þjónar í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli hjá séra Kristjáni Arasyni, sóknarpresti.
Tryggvi Sveinn er ekki nema fjórtán ára gamall en hann þjónar í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli hjá séra Kristjáni Arasyni, sóknarpresti. Margrét Brynjólfsdóttir.

Yngsti meðhjálpari landsins, Tryggvi Sveinn Eyjólfsson er ekki nema fjórtán ára gamall en hann þjónar í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli hjá séra Kristjáni Arasyni, sóknarpresti. Hann segir starfið mjög skemmtilegt þó að það sé unnið í sjálfboðavinnu.

Afi Tryggva og pabbi hans voru meðhjálparar á Rauðasandi en þeir eru báðir látnir og er Tryggvi því þriðji ættliður og sá yngsti, sem tekur við keflinu, sem meðhjálpari í kirkjunni í fjölskyldunni.

Tryggvi Sveinn er mikill íþróttamaður og æfir frjálsar og fótbolta.

En hvernig finnst honum að vera yngsti meðhjálpari landsins?

„Það er bara mjög gaman og skemmtileg upplifun. Ég er að hjálpa prestinum og að fara með bænir. Þetta er ekkert erfitt eða stressandi, bara mjög skemmtilegt,“ segir Tryggvi Sveinn.

Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli þar sem Tryggvi Sveinn er meðhjálpari eins og pabbi hans og afi voru líka en þeir eru báðir látnir.Margrét Brynjólfsdóttir

En er fólk ekkert hissa þegar það sér hann í kirkjunni að vinna þessi störf?

„Sumt jú smá, en annars finnst fólki bara gaman að sjá mig.“

Tryggvi Sveinn segir að fólki þyki gaman að sjá hann í hlutverki meðhjálpara í messum.Margrét Brynjólfsdóttir.

Tryggvi Sveinn segist þurfa að mæta sem meðhjálpari í allavega tvær messur í sumar en starfið hans er sjálfboðavinna en honum finnst það ekkert mál, enda sé þetta skemmtilegt og gefandi starf.

Mamma hans, Margrét Brynjólfsdóttir er að sjálfsögðu að rifna úr monti af stráknum.

„Hann gerir allt hundrað prósent og gaman hvernig hann fann hjá sjálfum sér að hann vildi taka við þessu embætti. Þetta er bara skemmtilegt og góð hefð í minningu pabba hans finnst mér. Að sjálfsögðu mæti ég í allar messur hjá strákunum,“ segir Margrét og hlær.

Tryggvi Sveinn býr á Patreksfirði með mömmu sinni og systkinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×