Umfjöllun: Lech Poznan - Víkingur 4-1 | Ýttu þeim pólsku út á ystu nöf

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danijel Djuric fagnar eftir að hafa skorað og tryggt Víkingi framlengingu gegn Lech Poznan.
Danijel Djuric fagnar eftir að hafa skorað og tryggt Víkingi framlengingu gegn Lech Poznan. epa/Jakub Kaczmarczyk

Víkingur er úr leik í Sambandsdeild Evrópu eftir 4-1 tap fyrir Lech Poznan í framlengdum seinni leik liðanna í 3. umferð forkeppninnar í kvöld. Póllandsmeistararnir unnu einvígið, 4-2 samanlagt, og Evrópuævintýri Íslands- og bikarmeistaranna er því lokið eftir átta leiki og frábæra frammistöðu.

Lech Poznan var 2-0 yfir í hálfleik fékk urmul færa til að skora fleiri mörk eftir því sem leið á leikinn. En meðan boltinn fór ekki inn áttu Víkingar enn möguleika og þeir nýttu sér hann svo sannarlega. Á fimmtu mínútu uppbótartíma skoraði Danijel Dean Djuric eftir sendingu Erlings Agnarssonar og því þurfti að framlengja.

Eftir sex mínútur í framlengingunni kom Filip Marchweski Lech Poznan í 3-1. Von Víkings veiktist svo enn frekar þegar Júlíus Magnússon, fyrirliði liðsins, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 110. mínútu. Júlíus vann boltann löglega en dómari leiksins, Julian Weinberger, leit ekki svo á og sendi hann í sturtu.

Lech Poznan fékk vítaspyrnu á 116. mínútu en Ingvar Jónsson kórónaði stórleik sinn með því að verja frá Afonso Sousa. Honum urðu hins vegar ekki á nein mistök þegar hann slapp í gegn mínútu fyrir lok framlengingarinnar, skoraði og veitti Víkingi náðarhöggið.

Víkingar geta og eiga að ganga hnarreistir frá leiknum og einvíginu. Þeir voru betri í fyrri leiknum, lentu í miklu mótlæti í kvöld en gáfust samt ekki upp og ýttu pólsku meisturunum út á ystu nöf. Því miður dugði það ekki til.

Víkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru í þrígang nálægt því að skora á fyrstu þrettán mínútum leiksins. Strax á 3. mínútu átti Ari Sigurpálsson, sem skoraði eina markið í fyrri leiknum, skot á lofti sem fór af varnarmanni og framhjá. Helgi Guðjónsson fékk svo dauðafæri á 8. mínútu eftir frábæran undirbúning Erlings en skaut framhjá. Eftir orrahríð að marki Víkings fékk Erlingur svo úrvals færi á 13. mínútu en skaut beint á Filip Bednarek í marki Lech Poznan.

Ari Sigurpálsson var nálægt því að skora í upphafi leiks.epa/Jakub Kaczmarczyk

Það var alltaf hætt við að þessi glötuðu færi kæmu í bakið á Víkingi en lengi vel benti ekkert til þess. Lech Poznan var vissulega meira með boltann en Pólverjarnir voru mjög óþolinmóðir í sinni sóknaruppbyggingu og voru ítrekað dæmdir rangstæðir.

Það kom þó að því sending inn fyrir vörn Víkings gengi. Á 32. mínútu fékk Kristoffer Velde boltann upp í hægra hornið og sendi fyrir á Mikael Ishak sem skoraði með skoti í fyrsta í fjærhornið.

Pólverjarnir efldust við þetta og hertu tökin enn frekar. Og mínútu fyrir hálfleik tvöfaldaði Velde forskot þeirra. Joel Pereira átti þá fyrirgjöf yfir Loga Tómasson á Velde sem skoraði.

Arnar Gunnlaugsson gerði tvöfalda breytingu í hálfleik, setti þá Danijel og Davíð Örn Atlason inn á, og skipti einnig um leikkerfi. En það hafði ekki tilætluð áhrif. Lech Poznan var áfram sterkari aðilinn og með góð tök á leiknum.

Sóknarleikur Víkinga var bitlítill í seinni hálfleik og svo virtist sem tankurinn væri svo gott sem tómur. Einfaldar sendingar rötuðu ekki á samherja og Víkingi gekk erfiðlega að koma sér framarlega á völlinn.

Davíð Örn Atlason átti kröftuga innkomu.epa/Jakub Kaczmarczyk

Danijel var samt líflegur og komst nálægt því að skora á 69. mínútu þegar skot hans fór af varnarmanni og framhjá. Hann átti svo skot beint úr aukaspyrnu á 80. mínútu sem Bednarek varði.

Víkingar reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna og við það opnaðist vörn þeirra. Pólverjarnir fengu hvert dauðafærið á fætur á öðru á lokakaflanum en þau nýttust ekki. Ingvar var magnaður í markinu og frammistaða hans minnti á frammistöðuna í frægum úrslitaleik FH og Stjörnunnar 2014.

Víkingar lifðu enn í voninni og nýttu sér það til hins ítrasta. Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sendi Ari boltann upp í hægra hornið á Erling sem gaf fyrir á Danijel sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Víking og tryggði sínum mönnum framlengingu. Ótrúlegur endir á venjulegum leiktíma.

Arnar Gunnlaugsson fagnar marki Danijels.epa/Jakub Kaczmarczyk

Eftir sex mínútur í framlengingunni kom Marchwinski Lech Poznan aftur í bílstjórasætið þegar hann skoraði með föstu skoti fyrir utan teig.

Þrátt fyrir að virðast vera komnir að fótum fram kom auka kraftur í lið Víkings eftir markið. Fossvogspiltar gáfu sig ekki, voru hættulegir í föstum leikatriðum en fengu engin afgerandi færi til að skora.

Róðurinn þyngdist enn frekar þegar Júlíusi var ranglega vísað af velli þegar tíu mínútur voru eftir.

Sá austurríski dæmdi svo vítaspyrnu á 116. mínútu þegar Sousa skaut í höndina á Davíð Erni Atlasyni. Portúgalinn fór sjálfur á punktinn en Ingvar las hann eins og opna bók og greip.

Sousa bætti þó upp fyrir vítaklúðrið þegar hann skoraði fjórða mark Lech Poznan á 119. mínútu. Hann fékk þá boltann frá Filip Szymczak, lék á Ingvar og skoraði.

Lokatölur 4-1, Lech Poznan í vil, og 4-2 samanlagt. Í umspilinu um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar mæta pólsku meistararnir Dudelange frá Lúxemborg.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira