Fótbolti

Bestu mörkin: Allt í lagi að setja kröfu á dómarana

Atli Arason skrifar
Mikll umræða skapaðist um skort á spjöldum í Bestu mörkunum.
Mikll umræða skapaðist um skort á spjöldum í Bestu mörkunum. Stöð 2 Sport

Mikill umræða skapaðist um dómgæslu, eða öllu heldur skort á dómgæslu, eftir 3-0 sigur Þróttar á Selfossi í Bestu-deild kvenna í gær.

Í viðtali eftir leik kallaði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, eftir því að leikmenn fái meiri vernd frá dómurunum.

„Ég vona að dómararnir fari að vernda leikmenn betur í framhaldinu því leikmenn hafa verið að meiðast því verndin á leikmönnum hefur verið hræðileg og hún var aftur hræðileg í kvöld. Það hefur verið allt of lítið spjaldað í allt sumar, dómarar eru einfaldlega ekki að passa upp á leikmenn,“ sagði Chamberlain.

Harpa Þorsteinsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir ræddu þetta svo enn frekar í uppgjörsþættinum Bestu mörkin og kölluðu þær eftir því að dómarar veifuðu spjöldum sínum oftar. Umræðuna úr Bestu mörkunum má sjá í spilaranum hér neðst í fréttinni.

„Það er ótrúlegt hvað það er búið að gefa lítið af gulum spjöldum og lítið af rauðum spjöldum í efstu deild kvenna,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, áður en hún bætti við.

„Mér finnst við þurfa að tala um þetta. Mér finnst dómarar vera alltof ragir að veita leikmönnum í kvennabolta gul spjöld.“

Bæði Helena Ólafsdóttir og Margrét Lára tóku undir orð Hörpu. Margrét telur að þjálfarar séu almennt hræddir að ræða þessi mál af ótta við að vera refsað fyrir að gagnrýna dómarana.

„Alveg eins og leikmennirnir eru að verða betri og hraðinn er að verða meiri þá er allt í lagi að setja kröfu á dómarana. Þeir þurfa líka að vera tilbúnir að taka gagnrýni og bæta sinn leik.“

„Við erum þakklátar fyrir þessa dómara okkar því án þeirra væri enginn leikur en auðvitað þarf líka að efla þá og þeir þurfa að læra af sínum mistökum. Ég er sammála þessu, það má stundum veifa spjöldunum í kvennafótboltanum því þetta hefur áhrif á leikinn og hvernig hann er spilaður,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

Klippa: Bestu mörkin: Allt í lagi að setja kröfu á dómarana

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×