Innherji

Markaðsvirði Símans hefur lækkað um 12,4 milljarða frá tilkynningu SKE

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bréf Símans lækkuðu um 6,7 prósent í gær og um 8 prósent í dag. 
Bréf Símans lækkuðu um 6,7 prósent í gær og um 8 prósent í dag.  Vísir/Vilhelm

Markaðsvirði Símans hefur minnkað um 12,4 milljarða króna frá hádegi í gær þegar Samkeppniseftirlitið birti umsagnir keppinauta fjarskiptafyrirtækisins um söluna á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian.

Gengi Símans stóð í 11,9 krónum á hlut þegar Kauphöllin opnaði í gær en lækkaði um 6,7 prósent eftir að Samkeppniseftirlitið birti tilkynninguna á heimasíðu sinni. Bréf fjarskiptafyrirtækisins hafa síðan lækkað um 8 prósent í dag og stendur gengið nú í 10,2 krónum.

Markaðsvirði Símans stendur nú í 74,5 milljörðum króna og hefur ekki verið lægra frá því í júní í fyrra.

Ardian hafði lagt til að einkakaupasamningur milli Símans og Mílu yrði til 17 ára í stað 20 ára til að koma til móts við frummat Samkeppniseftirlitsins en keppinautar Símans, að því er kom fram í umsögnum sem bárust eftirlitsstofnuninni, telja að stytta þurfi gildistíma samningsins enn frekar.

Samkvæmt heimildum Innherja áttu fulltrúar Ardian langan fund með stjórnendum Samkeppniseftirlitsins í gær. Heimildarmenn segja stöðuna mjög snúna og viðkvæma í ljósi þess að enn ber talsvert á milli tillögu Ardian og þeirra breytinga sem eftirlitsstofnunin telur að þurfi að gera á einkakaupasamningnum svo að hægt sé að samþykkja samrunann.

Kaupverðið hefur nú þegar lækkað úr 78 milljörðum króna niður í 73 milljarða vegna tillögu Ardian um að stytta samningstímanum úr 20 árum í 17 ár, og ljóst er að frekari stytting kallar á frekari lækkun á kaupverðsins. Aftur á móti er ekki víst að stjórn Símans sé reiðubúin að samþykkja sölu á lægra verði.

Ardian hefur gert margvíslegar athugasemdir við umsagnir keppinautanna, einkum umsögn Ljósleiðarans, sem, að sögn franska sjóðastýringarfyrirtækisins, leitast við að fá Samkeppniseftirlitið til þess að „verja markaðsráðandi stöðu sína“.

„Varnaðarorð keppinauta Mílu, þá einkum Ljósleiðarans, gegn viðskiptum þessum eru sett fram til þess að takmarka samkeppni frá Mílu. Hins vegar er það ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að vernda hið opinbera fyrirtæki Ljósleiðarann,“ segir í athugasemdum sem Ardian sendi Samkeppniseftirlitinu.


Tengdar fréttir

Stærsta innviðasala Íslandssögunnar hangir á bláþræði

Kaupin á Mílu eru um margt prófsteinn á það hvort erlendir langtímafjárfestar megi – hafi þeir á annað borð áhuga á með hliðsjón af flækjustiginu sem því oft fylgir – eiga í alvöru viðskiptum hér á landi þar sem ekki er verið að tjalda til einnar nætur, heldur áratuga, líkt og er ætlun Ardian. Þessa dagana erum við fá að svarið við þeirri spurningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×