Ardian lagði til að einkakaupasamningurinn yrði til 17 ára í stað 20 ára til að koma til móts við frummat Samkeppniseftirlitsins sem taldi að 20 ára samningur gæti komið í veg fyrir samkeppni. Í kjölfarið náðist samkomulag milli Ardian og Símans um að lækkað kaupverðið úr 78 milljörðum króna í 73 milljarða.
Stærstu keppinautar Símasamstæðunnar; Ljósleiðarinn, Sýn og Nova, telja hins vegar að tillögur Ardian gangi ekki nógu langt. Að mati Ljósleiðarans er ekki unnt að samþykkja umræddan samruna nema öll ákvæði sem fela í sér einkakaup verði felld úr heildsölusamningnum. Nova segir „ásættanlegt“ út frá markaðsaðstæðum að samningurinn sé á bilinu 3-5 ár.
„Í því samhengi er vert að nefna að umfang þeirra innviða sem hér um ræðir er mjög verulegt og eru þeir allir þegar til staðar. Öðrum þræði myndi gegna ef um væri að ræða innviðasamstarf þar sem þörf væri á mjög mikilli nýrri innviða uppbyggingu og þá í sértækum verkefnum, með mikið af nýjum fjárfestingum, en í slíkum tilvikum mætti hugsa sér lengri tímalengd,“ segir í umsögn Nova.
Að mati Nova, sem telur almennt æskilegt að Míla verði skilin frá Símanum, er ekki nóg að skorið sé formlega á eignatengslin ef í staðinn kemur samningur sem „rígbindur þessi félög og hagsmuni þeirra saman til áratuga.“
Sýn segir tillögur franska sjóðastýringarfyrirtækisins vera í rétta átt en telur að þær gangi of skammt til að draga úr samkeppnishamlandi áhrifum einkakaupaákvæðanna. Hefur Sýn beint því til Samkeppniseftirlitsins að taka til skoðunar hvort unnt sé að með frekari skilyrðum að draga enn frekar úr umfangi einkakaupa samkvæmt heildsölusamningnum.
Síminn og Ardian hafa skilað sínum athugasemdum um umsagnir keppinautanna en fjarskiptafyrirtækið segir ekkert í umsögnunum hnekki því að samruninn hafi verulega jákvæð áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaði. Er meðal annars bent á að ekki sé heimilt að grípa til íhlutunar í samruna ef hann felur óbreytt ástand heldur eingöngu ef hann felur í sér skaðleg áhrif.
„Ardian fær ekki skilið hvernig unnt er að komast að þeirri niðurstöðu að þjónustusamningurinn kunni að leiða til útilokunaráhrifa fyrir keppinauta Mílu. Við óbreytt ástand – með eignarhaldi Símans á Mílu – er hvati Símans til þess að eiga viðskipti við keppinauta Mílu svo gott sem enginn. Aðgengi keppinauta Mílu að viðskiptum við Símann er þannig mun takmarkaðra nú en að viðskiptum þessum frágengnum,“ segir í umsögn Ardian.
Þá segir jafnframt í umsögn Ardian að ljóst sé af umsögn Ljósleiðarans, sem er að mati franska fyrirtækisins neikvæðust af framkomnum umsögnum, að borgarfyrirtækið biðli til Samkeppniseftirlitsins um að takmarka með frekari hætti efni þjónustusamnings Mílu og Símans í því augnamiði að „verja markaðsráðandi stöðu sína“.
Eftir birtingu Samkeppniseftirlitsins á umsögnunum í dag – flestir umsagnaraðila telja að kaup Ardian á Mílu raski að óbreyttu samkeppni og að tillögur Ardian að skilyrðum dugi ekki til að afstýra þeim samkeppnishömlum – hefur hlutabréfaverð Símans lækkað um 6,7 prósent.
Innherji er undir hatti Sýnar hf.