Innherji

Hækkar verð­mat á Arion og segir efna­hags­um­hverfið „vinna með banka­starf­semi“

Hörður Ægisson skrifar
Benedikt Gí­slason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gí­slason, bankastjóri Arion banka.

Uppgjör Arion banka á öðrum ársfjórðungi, þar sem félagið skilaði rúmlega 9,7 milljarða króna hagnaði, var „allt samkvæmt áætlun“ en afkoman litaðist mjög af erfiðum aðstæðum á hlutabréfamörkuðum en á móti var yfir sex milljarða hagnaður af sölu eigna á fjórðungum.

Núverandi efnahagsumhverfi, sem einkennist af kröftugum hagvexti með miklum útlánavexti og hækkandi vaxtastigi, „vinnur með bankastarfsemi,“ segir í nýrri greiningu Jakobsson Capital á Arion þar sem verðmatið á bankann er hækkað lítillega frá fyrra mati.

Samkvæmt verðmati Jakobsson á Arion er gengi bréfa félagsins 201 krónur á hlut, sem er um 15 prósent hærra en núverandi markaðsgengi, sem þýðir að markaðsvirði bankans sé rúmlega 301 milljarður króna.

Mikil umsvif í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu skilaði sér í því að þóknanatekjur Arion hækkuðu um rúmlega 18 prósent á fyrri árshelmingi og námu um 8,1 milljarði króna. Þá bendir greinandi Jakobsson á að mikill vöxtur var í vaxtatekjum og jukust þær um tæplega 4,0 milljarð en útlánavöxtur á fyrri hluta árs 2022 var 7,9 prósent.

Samkvæmt aðstoðarbankastjóra hefur Arion banki lagt meiri áherslu á lán til byggingaverktaka fremur en til íbúðarkaupa undanfarið.

„Það hefur dregið úr útlánum til einstaklinga og nam vöxtur í útlánum til einstaklinga 4,3 prósent og til fyrirtækja 12,5 prósent. Miðað við ástand fasteignamarkaðar virðist það fremur skynsamleg ráðstöfun. Samkvæmt aðstoðarbankastjóra hefur Arion banki lagt meiri áherslu á lán til byggingaverktaka fremur en til íbúðarkaupa undanfarið,“ segir í greiningu Jakobsson Capital.

Þá er nefnt að vaxtamunur Arion, sem er reiknaður á meðalstöðu eigna, jókst umtalsvert og fór úr 2,57 prósentum í 2,87 prósent á milli ára á fyrri árshelmingi.

Heimild: Jakobsson Capital.

Mikil sveifla var í afkomu af verðbréfastöðum hjá Arion banka og var 1,9 milljarða króna tap á fyrstu sex mánuðum ársins borið saman við 3,7 milljarða hagnað á sama tíma fyrir ári.

„Arion er með hærra vægi hlutabréfa en ella vegna tryggingarrekstrar Varðar. Hlutabréfastaða Arion banka nam 23,7 milljörðum í lok annars ársfjórðungs og var hlutur Varðar 32,5 prósent í hlutabréfastöðum Arion eða 7,7 milljarðar. Samtals nam eignarhlutur Arion í verðbréfum 203,7 milljarðar í lok annars ársfjórðungs. Að langstærstum hluta er um að ræða skuldabréf og eignir til áhættuvarna eða 180 milljarðar. Þannig er aðeins mjög lítill hluti stöður í hlutabréfum,“ segir í greiningu Jakobsson.

Grunnrekstur Arion banka á tímabilinu var sterkari en gert var ráð fyrir, að sögn greinenda Jakobsson, en þar munaði mestu um mikinn vöxt í þóknanatekjum. Bent er á að taka þurfi hins vegar tillit til þess að Arion hafði umsjón með tveimur nýskráningum á fyrri árshelmingi – hjá Nova og Alvotech – sem hafi haft töluverð áhrif á afkomuna í það minnsta til skemmri tíma.

Þá er vakin athygli á því í greiningu Jakobsson að virkt skatthlutfall hafi verið „óvenjulega hátt“ hjá Arion banka, rétt eins og öðrum fjármálafyrirtækjum, á fyrri hluta árs 2022 eftir að hafa verið mjög lágt á sama tíma fyrir ári. Útskýrist það að stærstum hluta af því að ekki eru reiknaðir skattar af gengishagnaði eða gengistapi.

Hagnaður Arion á fyrri árshelmingi fyrir skatt og afkomu af aflagðri starfsemi var 13,8 milljarðar en skattgreiðslur bankans námu tæplega 5,2 milljörðum. Virkt skatthlutfall var því 37,6 prósent en á sama tíma í fyrra var það 19,4 prósent.

Miðað við þróun markaðar í júlí, þar sem gengi hlutabréfa hefur tekið við sér, gæti þessi þróun snúist við á síðari árshelmingi og afkoma þriðja ársfjórðungs orðið góð ef horft er til undirliggjandi rekstrar, að mati Jakobsson. Gert er ráð fyrir að hagnaður bankans á árinu í heild verði 33 milljarðar króna en eldri spá Jakobsson hljóðaði upp á 30,8 milljarða króna hagnað.

Á síðasta ársfjórðungi kláraðist sala Arion á Valitor og Sólbjargi, félag sem fór með eignarhlut bankans í Heimsferðum, og bókfærður hagnaður vegna þeirra viðskipta – fyrst og fremst af Valitor – nam samtals 6,1 milljarði króna. Arion hefur sagt að með sölunni á Valitor verði rekstur bankans einfaldari.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað talsvert síðustu vikur – frá því 20. júní er gengi bréfa bankans upp um liðlega 15 prósent – og stendur núna í 175 krónum á hlut. Frá áramótum hefur hlutabréfaverðið nánast staðið í stað sé leiðrétt fyrir 22,5 milljarða króna arðgreiðslu (15 krónur á hlut) til hluthafa í mars síðastliðnum en markaðsvirði bankans í dag er um 264 milljarðar.

Bankinn hefur boðað nýja endurkaupaáætlun upp á 10 milljarða króna sem bíður nú samþykkis Fjármálaeftirlits Seðlabankans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×