Innherji

Stoðir töpuðu nærri fimm milljörðum samhliða verðhruni á mörkuðum

Hörður Ægisson skrifar
Jón Sigurðsson er forstjóri fjárfestingafélagsins Stoðir.
Jón Sigurðsson er forstjóri fjárfestingafélagsins Stoðir.

Stoðir, eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins, tapaði rúmlega 4,7 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs samhliða miklum óróa á verðbréfamörkuðum þar sem virði helstu skráðra eigna félagsins lækkaði verulega. Á sama tímabili í fyrra skiluðu Stoðir hins vegar hagnaði upp á 12,6 milljarða króna og á öllu árinu var hagnaður félagsins tæplega 20 milljarðar.

Fjárfestingareignir Stoða, sem er nánast alfarið í eigu einkafjárfesta og verðbréfasjóða, lækkuðu í verði um liðlega 6,7 milljarða á fyrri árshelmingi – úr 47,7 milljörðum í 41 milljarð króna – en þar munaði mestu um neikvæða afkomu af hlutabréfaeign félagsins í Kviku og Arion banka. Stoðir eru sömuleiðis stærsti hluthafi Símans – virði 15,9 prósenta hlutar í fjarskiptafélaginu stóð í 13,7 milljörðum um mitt árið – og á meðal umsvifamestu eigenda í flugfélaginu Play.

Eigið fé fjárfestingafélagsins, sem er skuldlaust, stóð í 45,3 milljörðum króna í lok júnímánaðar, samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi, borið saman við 51 milljarð um síðustu áramót. Hefur eigið fé Stoða liðlega þrefaldast frá því í ársbyrjun 2019. Stoðir eiga um 4,5 milljarða króna í lausafé og jókst það um liðlega milljarð króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Óskráðar eignir Stoða, sem eru einkum þriðjungshlutur í fiskeldisfyrirtækinu Landeldi og rúmlega sjö prósenta hlutur í Bláa lóninu, eru bókfærðar á 6,4 milljarða króna en í lok síðasta árs námu slíkar eignir félagsins um 7,8 milljörðum króna.

Virði 6,2 prósenta hlutabréfaeignar Stoða í Kviku lækkaði um 2,3 milljarða króna á tímabilinu samhliða því að gengi bréfa bankans féll í verði um 30 prósent. Fjárfestingafélagið hafði hins vegar í nóvember í fyrra selt um þriðjung bréfa sinna í Kviku fyrir samanlagt um 3,5 milljarða eins og Innherji upplýsti um á þeim tíma. Að undanförnu hafa Stoðir verið að ráðast í fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum með kaupum í Landeldi og í Bláa lóninu á seinni helmingi síðasta árs.

Þá voru Stoðir einnig á meðal evrópskra hornsteinsfjárfesta sem komu að fjármögnun á nýju sérhæfðu yfirtökufélagi (e. SPAC), undir nafninu SPEAR Investments I, sem sótti sér 175 milljónir evra, jafnvirði um 26 milljarða íslenskra króna, í hlutafjárútboði sem kláraðist fyrr í lok síðasta árs. Stoðir fjárfestu í SPEAR Investments fyrir um 5 milljónir evra, jafnvirði um 750 milljónir króna á þáverandi gengi.

Fjárfestingafélagið, ásamt framtakssjóði í rekstri Alfa Framtaks, fara nú einnig fyrir hópi innlendra fjárfesta sem eru langt komnir í viðræðum um kaup á íslenska líftæknifyrirtækinu Algalíf á Reykjanesi. Vonir standa til að viðskiptin geti klárast í haust, eins og Innherji greindi frá í síðasta mánuði. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um endanlegt kaupverð á fyrirtækinu, sem er í dag í eigu norska félagsins HeTe Invest, en áætlanir ráðgera er að það geti verið á bilinu um 15 til 20 milljarðar króna gangi viðskiptin eftir.

Auk Stoða og nýs framtakssjóðs í stýringu Alfa Framtaks, sem er 15 milljarðar að stærð og heitir Umbreyting II, þá er gert ráð fyrir því lífeyrissjóðir og fleiri íslenskir fjárfestar muni koma að kaupunum.

Markaðsvirði skráðra eigna Stoða lækkuðu um rúmlega 14 prósent á fyrri árshelmingi og námu 33,2 milljörðum í lok júní. 

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum hafa átt erfitt uppdráttar á síðustu mánuðum vegna ótta fjárfesta um versnandi hagvaxtarhorfur samtímis því að helstu seðlabankar heimsins þurfa að hækka vexti hraðar og meira en áður var búist við til að stemma stigu við ört hækkandi verðbólgu. 

Íslenski markaðurinn, eins og endurspeglast í afkomu Stoða, hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Á fyrstu sex mánuðum ársins lækkaði Úrvalsvísitalan um tæplega 22 prósent en sé litið til vísitölunnar (OMXIPI) sem tekur tillit til allra félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar þá er lækkunin talsvert minni eða nálægt 15 prósent yfir sama tímabil.

Langsamlega stærsti eigandi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 með um 60 prósenta hlut. Þeir sem standa að því félagi eru meðal annars Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða og stjórnarformaður Símans, Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Play, Magnús Ármann, Þorsteinn M. Jónsson og Örvar Kjærnested, fjárfestir.

Aðrir helstu hluthafar Stoða eru sjóðir í stýringu Stefnis, sem fara samanlagt með um 9 prósenta hlut, og félagið Mótás sem á tæplega 6 prósenta hlut.


Tengdar fréttir

Ari og Magnús Ármann koma nýir í stjórn Stoða

Breytingar voru gerðar á stjórn Stoða á aðalfundi fjárfestingafélagsins fyrr í þessum mánuði þegar þeir Ari Fenger, forstjóri 1912 og formaður Viðskiptaráðs, og Magnús Ármann, fjárfestir, voru kjörnir sem nýir stjórnarmenn.

Stoðir fjárfesta í evrópsku SPAC-félagi sem var skráð á markað í Hollandi

Fjárfestingafélagið Stoðir var á meðal evrópskra hornsteinsfjárfesta sem komu að fjármögnun á nýju sérhæfðu yfirtökufélagi (e. SPAC), undir nafninu SPEAR Investments I, sem sótti sér 175 milljónir evra, jafnvirði um 26 milljarða íslenskra króna, í hlutafjárútboði sem kláraðist fyrr í þessum mánuði. Í kjölfarið var félagið skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam þann 11. nóvember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×