Viðskipti erlent

Fjár­festinga­fé­lag War­ren Buf­fett tapaði sex þúsund milljörðum króna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Warren Buffett (t.v.) er framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi Berkshire Hathaway.
Warren Buffett (t.v.) er framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og eigandi Berkshire Hathaway. Getty/Kevin Dietsch

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag rekið af milljarðamæringnum Warren Buffett, tapaði 43,8 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi, rúmum sex þúsund milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt fréttaveitu Reuters hafa hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum verið á mikilli niðurleið síðustu mánuði og er það ein af ástæðum slæmrar afkomu Berkshire Hathaway.

Félagið hefur fjárfest mikið í Apple, Bank of America og American Express en virði allra þessara þriggja félaga féll um meira en tuttugu prósent á öðrum ársfjórðungi. Þá segir í ársfjórðungsskýrslu félagsins að Covid-19 og stríðið í Úkraínu spili einnig inn í tapið.

Félagið er metið á 660 milljarði dollara en hlutabréf í félaginu hafa lækkað um 2,76 prósent á síðustu fimm dögum. Þó hafa hlutabréf í félaginu hækkað um tæplega 28 prósent síðan heimsfaraldur kórónuveirunnar hófst í febrúar árið 2020.

Berkshire Hathaway á fjölda fyrirtækja, til dæmis járnbrautafélagið BNSF, ísbúðakeðjuna Dairy Queen og rafhlöðuframleiðandann Duracell.

Sem áður segir er Warren Buffett eigandi félagsins og einnig stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. Samkvæmt lista Forbes er Buffett fimmti ríkasti maður heims og er metinn á 118 milljarða dollara.


Tengdar fréttir

Buffett búinn að skipta út samlokusímanum

Bandaríski milljarðamæringurinn og fjárfestirinn Warren Buffett viðurkenndi í viðtali á mánudaginn að hann væri búinn að skipta samlokusímanum sínum út fyrir nýjustu gerð af iPhone-síma Apple.

Warren Buffett viðurkennir mistök

Berkshire Hathaway greiddi of mikið fyrir Kraft við sameiningu við Heinz. Buffett segir að matvælarisinn hafi ekki lengur sömu góðu samningsstöðuna gagnvart smásölum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×