Innlent

Samviskusamur köttur hjá Icewear á Akureyri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ágústa situr meira og minna við afgreiðsluborðið alla daga hjá Icewear í göngugötunni á Akureyri og tekur þar á móti viðskiptavinum um leið og hún þiggur knús og klapp frá þeim.
Ágústa situr meira og minna við afgreiðsluborðið alla daga hjá Icewear í göngugötunni á Akureyri og tekur þar á móti viðskiptavinum um leið og hún þiggur knús og klapp frá þeim. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Læðan Ágústa er magnaður köttur á Akureyri því hún lítur á sig, sem einn af starfsmönnum Icewear í göngugötunni enda situr hún meira og minna allan daginn við afgreiðsluborðið. Þá bíður hún við dyrnar á morgnanna eftir því að verslunin opni, enda samviskusöm með eindæmum þegar vinnan er annars vegar.

Ágústa vekur alltaf mikla athygli inn í versluninni á meðal viðskiptavina enda situr hún oftast við afgreiðslukassann og bíður eftir að viðskiptavinirnir komi með vörurnar og borgi. Hún er líka mjög samviskusöm að mæta í vinnuna, er oftast komin töluvert fyrr en verslunin opnar á morgnanna og bíður þar eftir að verða hleypt inn.

„Já, hún flutti hingað inn til okkar. Hún var alltaf að ráfa um bæinn og við ákváðum bara að taka hana inn því hún virtist ekki eiga heima neins staðar og núna býr hún bara með okkur. Hún á búðina bókstaflega,“ segir Ingibjörg Aþena Ellertsdóttir, starfsmaður Icewear á Akureyri.

Ágústa tekur sig einstaklega vel út í versluninni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og hún bíður á morgnanna eftir að verslunin opni.

„Já, við hleypum henni ekki inn á kvöldin ef hún er ekki komin, við nennum ekki að fara að leita af henni, þannig að hún bíður bara úti, situr fallega og bíður eftir okkur.“ Segir Ingibjörg.

Ágústa bíður hér eftir að verslunin opni en á meðan eru erlendir ferðamenn að virða hana fyrir sér og gera sig líklega til að klappa henni.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Viðskiptavinir eru ánægðir þegar þeir sjá Ágústu við afgreiðsluborðið.

„Já, já, það eru allir voðalega hrifnir af henni og hún fær endalaust af klöppum og knúsum á dag,“ segir Ingibjörg enn fremur.

Verslun Icewear í göngugötunni á Akureyri.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×