Innlent

Skógarmítlar og fola­flugur hafa numið land í Surts­ey

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Folaflugan er mjög lík hrossaflugunni en þó mun stærri.
Folaflugan er mjög lík hrossaflugunni en þó mun stærri. NI/Erling Ólafsson

Folaflugur og skógarmítill eru meðal smádýra sem fundust í leiðangri vísindamanna til Surtseyjar fyrr í mánuðinum. Flugan fyrrnefnda hefur aldrei fundist áður í eyjunni en skógarmítill fannst síðast árið 1967 í Surtsey.

Folaflugan er áberandi víða á landi þessa dagana en ekki er ástæða til að fagna nýja landnemanum. Eins og fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar er um skaðvald að ræða, ólíkt hinni klassísku hrossaflugu. Lirfur folaflugunnar naga gróður neðan frá þannig að græðlingum blæðir út og þeir falla.

„Hún er mun stærri en frænkur hennar hrossaflugan (Tipula rufina) og trippaflugan (Tipula confusa) sem fólk kannast við frá fornu fari. Þær tvær eru afar líkar í útliti, sitja flatar á húsveggjum með vængina liggjandi flatt yfir bolnum, en folaflugan heldur vængjum út frá bolnum og vita þeir nokkuð upp aftur,“ segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur á Facebook-síðu sinni „Heimur smádýranna“.

Skógarmítillinn fannst hins vegar óvænt í máfavarpi í Surtsey við háfun, og hefur væntanlega hefur borist með farfugli. Tegundin hefur ekki fundist síðan 1967 og þótti því heyra til tíðinda í Surtseyjarleiðangri líffræðinganna. Hvort fleiri spennandi tegundir hafi fundist kemur í ljós við nánari greiningu sýna.

Skógarmítillinn sem fannst í Surtsey er karldýr sem líklega hefur borist með farfugli.NI/Erling Ólafsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×