Fótbolti

„Þetta verður frábær fótboltaveisla“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýsku stelpurnar fagna marki í undanúrslitaleiknum á móti Frakklandi.
Þýsku stelpurnar fagna marki í undanúrslitaleiknum á móti Frakklandi. AP/Rui Vieira

England og Þýskaland mætast í úrslitaleik Evrópumótsins í Lundúnum á sunnudaginn og þjálfari Þjóðverja lofar veislu á Wembley leikvanginum.

Martina Voss-Tecklenburg er búin að koma þýska liðinu í úrslitaleik EM í fyrsta sinn í níu ár, leikinn sem Þjóðverjar unnu á sex Evrópumótum í röð frá 1995 til 2013.

Nú er mótherjinn heimakonur í enska landsliðinu sem hafa farið á kostum á mótinu. Enska landsliðið hefur aldrei unnið Evrópumeistaratitilinn en varð í öðru sæti bæði 1984 og 2009.

Síðasti úrslitaleikur enska landsliðsins var einmitt á móti Þjóðverjum á EM í Finnlandi þar sem Þjóðverjar unnu 6-2 sigur fyrir framan tæplega sextán þúsund manns.

Nú er búist við níutíu þúsund áhorfendum á úrslitaleikinn og flestir verða á bandi þeirra ensku.

„Þetta er klassískur leikur og verður ótrúlegur úrslitaleikur,“ sagði Martina Voss-Tecklenburg, þjálfari þýska landsliðsins, eftir sigurinn á Frökkum í undanúrslitaleiknum.

„Okkur hlakkar til að spila þennan leik og ég held að það geri allir bæði í Englandi og í Þýskalandi. ,“ sagði Martina.

„Við verðum að spila á Wembley fyrir framan áttatíu eða níutíu þúsund manns. Flestir munu styðja þær og verða á móti okkur en við skiljum það og tökum þeirri áskorun,“ sagði Martina.

„Enska liðið hefur verið magnað í þessu móti og í öllum leik hafa þær sýnt dýnamískan leik, skoraði mikið af mörkum og hafa svo mikið sjálfstraust. Þær vita hvað þær þurfa að vera en Svíar sýndu það á fyrstu þrjátíu mínútunum hvernig þú særir þær. Það verður okkar verkefni. Þetta verður frábær fótboltaveisla,“ sagði Martina Voss-Tecklenburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×