Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Arion en afkoma bankans á fjórðungnum var á pari við meðalspá greinenda, eins og Innherji hafði fjallað um fyrr í vikunni, og arðsemi eiginfjár mældist 21,8 prósent.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, segir afkomuna hafa verið „góða“ og þar skipti mestu að „kjarnastarfsemi bankans heldur áfram að þróast með jákvæðum hætti og gengið var frá sölu bankans á dótturfélaginu Valitor á tímabilinu.“
Hækkandi vaxtastig hafði jákvæð áhrif á vaxtatekjur bankans sem jukust um 22 prósent, litlu meira en greinendur höfðu spáð fyrir um, og voru samtals um 9,8 milljarðar króna. Erfiðar aðstæður á fjármálaörkuðum þýddu hins vegar á móti að fjármunatekjur drógust verulega saman – talsvert meira en greinendur höfðu áætlað – og voru neikvæðar um rúmlega 2,9 milljarða króna eftir að hafa verið jákvæðar um 2,2 milljarða á sama tímabili fyrir ári.
Hreinn vaxtamunur hækkaði úr 2,9 prósentum í 3,1 prósent.
Tekjur af kjarnastarfsemi Arion banka, þar sem vaxtatekjurnar vega þyngst, hækkuðu um 23,5 prósent á milli ára á meðan rekstrarkostnaður jókst um 4 prósent og var samtals um 6,65 milljarðar á fjórðungnum.
Afkoma Arion litast hins vegar mjög af um 5,6 milljarða bókfærðum hagnaði vegna sölu bankans á dótturfélaginu Valitor til Rapyd, sem kláraðist undir lok síðasta mánaðar, einu ári eftir að fyrst var tilkynnt um kaupin.
Góður árangur náðist á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu.
Í afkomutilkynningu Arion segir Benedikt að salan á Valitor einfaldar samstæðu félagsins og „skerpir fókus.“ Þá bíður ný endurkaupaáætlun bankans upp á 10 milljarða samþykkis Fjármálaeftirlitsins.
Lán Arion banka til viðskiptavina jukust um tæplega 8 prósent frá áramótum en sú hækkun snýr aðallega að lánum til fyrirtækja sem hækkuðu um 12,5 prósent.
Eigið fé Arion nam 183 milljörðum króna í lok annars fjórðungs en það hefur lækkað frá áramótum vegna arðgreiðslna og endurkaupa á eigin bréfum að fjárhæð 26,8 milljarða króna á tímabilinu. Eiginfjárhlutfall bankans stendur í 23,5 prósent.