Golf

Sýndi gríðarlegan karakter og vann á lokaholunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Henderson fagnaði sigri í dag eftir frábæra spilamennsku síðustu daga.
Henderson fagnaði sigri í dag eftir frábæra spilamennsku síðustu daga. Stuart Franklin/Getty Images

Hin kanadíska Brooke Henderson fagnaði í dag sigri á Evian-risamótinu í golfi á LPGA-mótaröðinni. Spennan var mikil á lokahringnum.

Henderson átti sögulega byrjun á mótinu þar sem hún fór fyrstu tvo hringina á 64 höggum, sjö undir pari vallar, en enginn kvenkylfingur hefur gert slíkt áður. Hún var með þriggja högga forystu eftir fyrstu tvo hringina en munurinn var tvö högg fyrir lokahringinn í dag.

Eftir frábæra spilamennsku fram að deginum í dag fataðist Henderson lítillega flugið. Hún fékk tvo skolla og einn skramba á fyrstu ellefu holunum og var þá á þremur höggum yfir pari á hringnum. Aðrir kylfingar voru þá komnir yfir hana í heildartöflunni en sú kanadíska steig rækilega upp á lokakaflanum.

Hún fékk þrjá fugla á síðustu fimm holunum, þar á meðal einn á átjándu og síðustu braut vallar, til að tryggja sér sigurinn á mótinu.

Henderson fór hringinn á pari og lauk keppni á sama skori og hún hóf daginn á, 17 undir pari. Sophia Schubert frá Bandaríkjunum var önnur á 16 undir en fimm kylfingar voru á 15 undir pari.

Sigur Henderson er hennar tólfti á LPGA-mótaröðinni og þá er þetta annað risamótið sem hún vinnur á eftir PGA meistaramótinu árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×