Golf

Henderson enn með forystu en spennan eykst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Henderson skráði sig í sögubækurnar með fyrstu tveimur hringjunum en munurinn á toppnum er þó aðeins tvö högg.
Henderson skráði sig í sögubækurnar með fyrstu tveimur hringjunum en munurinn á toppnum er þó aðeins tvö högg. Stuart Franklin/Getty Images

Hin kanadíska Brooke Henderson er enn í forystu á Evian-risamótinu í golfi sem fram fer í Frakklandi. Þriðji hringur LPGA-mótsins var leikinn í dag en forysta Henderson er höggi minni en eftir daginn í gær.

Henderson var höggi frá forystunni eftir fyrsta hringinn á fimmtudag en var efst eftir annan hringinn í gær, þar sem hún lék á 64 höggum, sjö undir pari vallar, rétt eins og hún gerði fyrsta daginn. Hún varð með því sú fyrsta í sögunni til að leika fyrstu tvo hringi LPGA-móts á 64 höggum eða minna.

Hún fékk skolla á fyrstu braut í dag en svaraði vel fyrir það með fjórum fuglum á næstu tólf holum. Aðrar brautir fór hún á pari og lék því á þremur höggum undir pari og er á 17 undir parinu í heildina.

Hin suður-kóreska So Yeon Ryu er önnur á mótinu á 15 höggum undir pari, fjórum höggum á eftir Henderson, eftir að hafa leikið hring dagsins á sex undir pari. Aðeins tveimur höggum munar því á þeim fyrir lokadaginn. Þriðja er hin bandaríska Sophia Schubert á 13 undir pari.

Carlota Ciganda frá Spáni og Sei Young Kim frá Suður-Kóreu er þá á 12 undir pari í fjórða sætinu en fimm kylfingar eru höggi á eftir þeim, jafnar í því sjötta.

Hin svissneska Albane Valenzuela lék kvenna best á hringnum í dag er hún fór hringinn á sjö höggum undir pari vallar. Með þeim árangri fór hún upp um 39 sæti, í það ellefta, hvar hún er jöfn Lydiu Ko frá Ástralíu á tíu undir pari.

Lokahringur mótsins verður leikinn á morgun og hefst bein útsending frá honum á Stöð 2 Golf klukkan 9:30 í fyrramálið.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×