Innherji

Gengi bréfa Marels og Kviku hríðfellur eftir afkomuviðvaranir

Hörður Ægisson skrifar
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er niður um 3,8 prósent í morgun.
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er niður um 3,8 prósent í morgun. VÍSIR/VILHELM

Gengi hlutabréfa Marels og Kviku banka hefur lækkað mikið í verði í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun eftir að félögin sendu frá sér neikvæða afkomuviðvörun seint í gærkvöldi. Hagnaður félaganna á öðrum ársfjórðungi verður mun lægri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir vegna erfiðra markaðstæðna.

Hlutabréfaverð Marels, langverðmætasta fyrirtækið sem er skráð í Kauphöllina, stendur nú í 622 krónum á hlut og hefur lækkað um liðlega 8,5 prósent. Markaðsvirði félagsins er því niður um 45 milljarða í morgun. Gengi bréfa Kviku hefur lækkað um tæplega fimm prósent frá því að viðskipti hófust í Kauphöllinni í dag og er nú 19,7 krónur á hlut.

Markaðsvirði beggja félaganna, sem hafði á síðustu fjórum vikum hækkað nokkuð, hefur því samanlagt lækkað um liðlega 50 milljarða króna eftir neikvæðu afkomuviðvaranirnar sem þau sendu frá sér í gærkvöldi. Velta með bréf Kviku nemur 340 milljónum króna en í tilfelli Marels er veltan aðeins 45 milljónir.

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er niður um 3,8 prósent í morgun.

Í afkomuviðvörun sem Marel sendi frá sér í Kauphöllina eftir lokun markaða í gær kom fram að samkvæmt óendurskoðuðu brábirgðauppgjöri þá hafi verið metpantanir á öðrum fjórðungi ársins að upphæð 472 milljónir evra borið saman við pantanir upp á 371 milljón evra á sama tíma í fyrra. Þá jukust tekjur félagsins um nærri 70 milljónir evra og eru áætlaðar 397 milljónir evra.

Kaupin á Wenger, sem tilkynnt var um í lok apríl, skiluðu pöntunum sem nema 17 milljónum evrum og tekjum upp á 12 milljónum evra. Þá stóð pantanabókin, að meðtaldri frá Wenger og Sleegers, í 775 milljónum evra.

Rekstrarniðurstaða fjórðungsins var hins vegar langt undir væntingum og var EBIT-framlegðin 6,3 prósent og minnkaði um tæplega helming frá fyrra ári. Kaupin á Wenger eru sögð hafa jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna en í ljósi áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu leiddi til hægari tekjuvaxtar en búist var við þá hefur Marel ákveðið að grípa til aðgerða þegar í stað til að bæta afkomuna og styðja við fjárhagsleg markmið félagsins fyrir árslok 2023.

Til að lækka kostnað hefur félagið því ákveðið að fækka starfsmönnum um 5 prósent á heimsvísu en áætlað er að þær breytingar muni skila sér í lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 20 milljónum evra á ársgrundvelli. Einskiptiskostnaður vegna aðgerðanna nemur hins vegar um 10 milljónum evra. Á síðasta ári störfuðu að meðaltali um 7.140 manns hjá Marel á heimsvísu.

Aðstæður á verðbréfamörkuðum með „allra versta móti“

Þá kom fram í afkomuviðvörun frá Kviku að drög að uppgjöri samstæðunnar, sem inniheldur meðal annars rekstur TM, sýni að hagnaður fyrir skatta á öðrum fjórðungi verði á bilinu 450 til 500 milljónir króna. Það er um 1,8 milljörðum króna lakari afkoma en áður var áætlað en aðeins rúmlega tveir mánuðir eru liðnir frá því að félagið uppfærði hana og hljóðaði hún þá upp á 2,15 til 2,4 milljarða króna.

„Munur á afkomu samstæðunnar og áætlun skýrist af lægri fjárfestingatekjum en gert var ráð fyrir, enda voru aðstæður á verðbréfamörkuðum á ársfjórðungnum með allra versta móti. Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 0,9 milljarða en gert hafi verið ráð fyrir að þær yrðu jákvæðar um 1 milljarð króna á tímabilinu. Fjárfestingatekjur voru því 1,9 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir,“ sagði í tilkynningunni sem bankinn sendi frá sér.

Grunnrekstur samstæðunnar er hins vegar sagður hafa verið sterkur á tímabilinu. Hreinar vaxtatekjur voru 1,9 milljarður, hreinar þóknanatekjur 1,6 milljarður, hrein iðgjöld 1,6 milljarður og tjón um 1 milljarður. Þá nam rekstrarkostnaður 3,2 milljörðum króna sem var í samræmi við áætlanir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×