Innlent

Eins og Íslendingar hafi farið til sólarlanda þetta sumarið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lára Björnsdóttir er umsjónarmaður tjaldsvæða Fjarðabyggðar.
Lára Björnsdóttir er umsjónarmaður tjaldsvæða Fjarðabyggðar. Sigurjón Ólason

Mun færri Íslendingar hafa sést á tjaldsvæðum Austfjarða í ár en í fyrra og þar spyrja menn sig hvort sólarlandafrí hafi orðið ofan á hjá landsmönnum þetta sumarið. Tímabil erlendra ferðamanna virðist hins vegar vera að lengjast.

Í fréttum Stöðvar 2 var tjaldsvæðið á Reyðarfirði heimsótt, eitt fimm tjaldsvæða í Fjarðabyggð. Á sama tíma í fyrra var allt brjálað að gera í hitabylgjunni. En hvernig skyldi staðan vera þetta sumarið?

„Það er ekki nærri eins gott veður og í fyrra, ekki ennþá,“ svarar Lára Björnsdóttir, umsjónarmaður tjaldsvæða Fjarðabyggðar.

„Hinsvegar virðist vera að lengjast tímabilið hjá okkur því það byrjaði fyrr. Gestir voru farnir að mæta hérna í apríl og það var ennþá snjókoma öðru hvoru.

Ég hugsa að það verði líka lengra. Ég býst við að við höfum opið fram í október.“

Frá tjaldsvæðinu á Reyðarfirði.Sigurjón Ólason

Í fyrrasumar voru Íslendingar áttatíu prósent gesta. Núna eru erlendir ferðamenn í meirihluta.

„Þeir eru að koma ýmist með flugi eða með Norrænu á Seyðisfjörð.“

Hún segir þó talsvert af Íslendingum í gönguhópum á Austurlandi.

„Þeir gista þá væntanlega í ferðaskálunum hjá ferðafélögunum. Hinir eru eflaust bara úti í sólinni, á Ítalíu eða Spáni.“

En sjást þá varla Íslendingar á tjaldsvæðunum í ár?

„Ég segi það ekki. Mér finnst vera að aukast núna, alveg bara með hverjum deginum sem líður. Þeir bara eru kannski rétt að byrja sumarfríið sitt núna,“ segir Lára Björnsdóttir.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Silfurbergið frá Helgustöðum sagt hafa breytt heiminum

Áhugi á Helgustaðanámunni við Reyðarfjörð hefur aukist og er áætlað að milli fimm og sjöþúsund ferðamenn skoði hana árlega. Nýútkomin bók varpar skýrara ljósi á það hvernig silfurbergið sem unnið var úr námunni í um 250 ára skeið olli straumhvörfum í vísindarannsóknum mannkyns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×