Fótbolti

Segir að það geti verið tvíeggja sverð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir mæta á æfingu liðsins eftir leikinn við Ítala.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir mæta á æfingu liðsins eftir leikinn við Ítala. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segir að það gæti verið bæði gott og slæmt að Frakkarnir séu búnir að tryggja sér sigur í riðlinum áður en kemur að leiknum við Ísland.

Íslenska liðið þarf að ná í úrslit á móti Frökkum, jafntefli gæti dugað en sigur tryggir íslenska liðinu sæti í átta liða úrslitum.

„Þetta lítur þannig út að við erum í öðru sæti í riðlinum og það er þannig lagað í okkar höndum að ráða framhaldinu,“ sagði Ásmundur fyrir æfingu íslenska liðsins í Crewe.

Frakkar hafa unnið báða sína leiki, unnu fyrst Ítali 5-1 en unnu svo Belga 2-1 í síðasta leik.

Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari landsliðsins.Vísir/Vilhelm

„Það var gott að þær komust áfram og séu nú í þeirri stöðu fyrir síðasta leik að vera komnar upp úr riðlinum. Það veður forvitnilegt að sjá hvað þær gera með það,“ sagði Ásmundur en það gæti þýtt að inn kæmi fullt af leikmönnum staðráðnar í að sýna sig og sanna.

„Það virkar á alla vegu. Það getur verið tvíeggja sverð þegar þú ert kominn þangað en það veður forvitnilegt að sjá hvernig þær nálgast þann leik,“ sagði Ásmundur.

Hann er jákvæði út í frammistöðu íslenska liðsins á mótinu til þessa.

„Við erum að verjast á einhverjum hluta leiksins og gerum það mjög vel. Við erum að fá færi til þess að klára leikina. Við skorum mörk í leikjunum. Við erum að spila á móti mjög öflugum fótboltaþjóðum og það sem er jákvætt að við erum ekki að tapa leikjum, við erum enn þá með í mótinu og í þeirri stöðu vildum við vera fyrir síðasta leik í riðli,“ sagði Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×