Innlent

Stjörnu-Sæ­var leysir ráð­gátuna

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Stjörnu-Sævar leysti ráðgátuna.
Stjörnu-Sævar leysti ráðgátuna. Vísir/Sigurjón Ólason

Röntgensjónaukinn XI Calibur frá NASA sást á himni víðs vegar um land á miðvikudagskvöld og vakti mikla athygli hjá þeim sem hann sáu.

Sævar Helgi Bragason stjörnufræðiáhugamaður, oftar kallaður Stjörnu-Sævar birti Facebook færslu í gær þar sem hann sagðist hafa fengið margar tilkynningar og myndir af óvenjulegu fyrirbæri á himni kvöldið áður.

Fyrirbærið segir Sævar vera röntgensjónaukann XI Calibur frá NASA en sjónaukanum var sleppt frá Kiruna í Svíþjóð.

„Þetta er sem sagt svona röntgen geimsjónauki sem þýðir að hann er að mæla rosalega orkuríkt ljós sem berst frá heitu gasi í kringum svarthol og það sem heitir nifteindastjörnur, nifteindastjörnur eru leifar stjarna sem hafa sprungið,“ segir Sævar í samtali við fréttastofu.

Sævar segir svarthol koma upp um sig sjálf með gasi í kringum þau, við sjáum ekki svartholin heldur gasið.

„Þegar að svarthol er að gleypa efni þá má alveg ímynda sér það þannig að það sé eins og niðurfall, þá snýst gasið í hringi og alveg gríðarlega hratt. Það snýst svo hratt að gasið hitnar heil ósköp, verður margar milljónir gráða að hita og þá byrjar það að gefa frá sér ljós sem er svona röntgengeislun,“ segir Sævar

Sjónaukinn er hangandi í helíumloftbelg í 37 kílómetra hæð og sást víða um land þar sem skilyrði leyfðu en sjónaukinn eigi að lenda í Kanada innan nokkurra daga.

Facebook færslu Sævars og myndir af sjónaukanum má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×