Fótbolti

Aðeins eins mánaða og þriggja mánaða gamlar þegar við unnum síðast Ítali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki há í loftinu þegar Ísland vann síðast Ítalíu í A-landsleik kvenna.
Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki há í loftinu þegar Ísland vann síðast Ítalíu í A-landsleik kvenna. Vísir/Vilhelm

Það er orðið langt síðan að Ísland vann Ítalíu hjá A-landsliðum kvenna í fótbolta. Þjóðirnar hafa mæst sjö sinnum og eini sigur íslenska liðsins kom fyrir meira en tuttugu árum síðan.

Ísland mætir Ítalíu í kvöld í öðrum leik þjóðanna í D-riðli á Evrópumótinu í Englandi.

Ísland vann Ítalíu í fyrsta og eina skiptið á Laugardalsvellinum 8. september 2001. Olga Færseth skoraði bæði mörk íslenska liðsins í leiknum sem komu á 40. og 55. mínútu.

Tveir lykilmenn íslenska landsliðsins í dag voru báðar nýfæddar á þessum tíma.

Forsíða íþróttakálfs DV eftir sigurinn á Ítalíu.Timarit.is/DV

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er fædd í ágúst og var nákvæmlega eins mánaða þegar leikurinn fór fram.

Sveindís Jane Jónsdóttir er fædd í júní og var því orðin þriggja mánaða á þessum tíma.

Þær Amanda Jacobsen Andradóttir og Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving voru ekki fæddar og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var þriggja mánaða eins og Sveindís.

Frá þessum sigurleik Íslands þremur dögum fyrir 11. september atburðina í New York þá hafa þjóðirnar spilað fjórum sinnum. Ítalía hefur unnið tvo leiki og tveir hafa endaði með jafntefli.

Olga hefur enn skorað helming markanna sem íslenskt kvennalandslið hefur skorað á móti Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×